Erlent

Kínverjar beittu neitunarvaldi sínu í öryggisráðinu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Min Aung Hlaing sést hér til hægri. Hann hefur nú tekið völdin í Mjanmar og sett Aung San Suu Kyi, til vinstri, í stofufangelsi.
Min Aung Hlaing sést hér til hægri. Hann hefur nú tekið völdin í Mjanmar og sett Aung San Suu Kyi, til vinstri, í stofufangelsi. AP/Aung Shine Oo

Kínverjar hafa beitt neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gegn tillögu um að fordæma herforingjastjórnina í Mjanmar.

Herforingjarnir frömdu valdarán í landinu á mánudag og hnepptu hundruð þingmanna í varðhald, þar á meðal leiðtoga landsins Aung San Suu Kyi.

Öryggisráðið hittist í gærkvöldi og þar var vilji fyrir því að samþykkja fordæmingu á aðgerðum hersins, en Kínverjar, sem sögulega hafa verið bandamenn hersins í Mjanmar, lögðust gegn því.

Kínverjar, líkt og aðrar þjóðir sem hafa fasta setu í öryggisráðinu hafa neitunarvald í ráðinu. Fyrir fund öryggisráðsins hafði Christine Schraner, sérlegur erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Mjanmar fordæmt aðgerðir hersins harðlega en valdaránið kom í kjölfar kosninga í landinu sem Suu Kyi og félagar unnu örugglega.

Herinn fullyrti hins vegar að um kosningasvindl hefði verið að ræða og tók síðan að lokum völdin. Christine Schraner segir hins vegar ljóst að flokkur Suu Kyi hafi farið með yfirburðasigur af hólmi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.