Íslenski boltinn

Kjartan Henry laus allra mála hjá Esbjerg og á heimleið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason hefur leikið í Danmörku undanfarin ár.
Kjartan Henry Finnbogason hefur leikið í Danmörku undanfarin ár. getty/Lars Ronbog

Kjartan Henry Finnbogason hefur leikið sinn síðasta leik fyrir danska B-deildarliðið Esbjerg og er á heimleið.

Þetta kemur fram á heimasíðu Esbjerg í dag. Þar segir að félagið og Kjartan hafi komist að samkomulagi um riftun á samningi svo hann geti gengið í raðir liðs á Íslandi áður en félagaskiptaglugganum hér á landi verður lokað annað kvöld.

Kjartan er á leið til KR sem hann lék síðast með 2014. Hann varð Íslandsmeistari með KR 2011 og 2013 og bikarmeistari 2011, 2012 og 2014 undir stjórn Rúnars Kristinssonar sem er einnig þjálfari KR í dag.

Kjartan gekk í raðir Esbjerg 1. febrúar en náði aðeins að spila átta leiki fyrir félagið vegna meiðsla. Hann hefur einnig leikið með Horsens og Vejle í Danmörku.

Ólafi Kristjánssyni var sagt upp störfum hjá Esbjerg í gær. Andri Rúnar Bjarnason er á mála hjá félaginu.

KR er með þrjú stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í Pepsi Max-deildinni. Næsti leikur liðsins er gegn Fylki í Árbænum annað kvöld.

Kjartan Henry, sem er 34 ára, hefur leikið 98 leiki í efstu deild á Íslandi og skorað 38 mörk. Þá hefur hann skorað þrettán mörk í 27 bikarleikjum og átta mörk í átján Evrópuleikjum fyrir KR. Hann hefur leikið þrettán A-landsleiki og skorað þrjú mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×