Íslenski boltinn

Daði Freyr í markið hjá Þór

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daði Freyr Arnarsson í baráttu við Óttar Magnús Karlsson í bikarúrslitaleik Víkings og FH fyrir tveimur árum.
Daði Freyr Arnarsson í baráttu við Óttar Magnús Karlsson í bikarúrslitaleik Víkings og FH fyrir tveimur árum. vísir/vilhelm

FH hefur lánað markvörðinn Daða Frey Arnarsson til Þórs Ak. út tímabilið. Aron Birkir Stefánsson, aðalmarkvörður Þórs, er meiddur og gæti verið lengi frá.

Daði Freyr, sem er frá Suðureyri í Súgandafirði, hóf ferilinn með BÍ/Bolungarvík en gekk í raðir FH 2017. Hann lék sem lánsmaður með Vestra í 2. deild 2017 og 2018.

Sumarið 2019 fékk Daði Freyr tækifæri í marki FH þegar Gunnar Nielsen meiddist. Hann lék fimmtán leiki í Pepsi Max-deildinni auk þriggja í Mjólkurbikarnum. Daði Freyr stóð meðal annars á milli stanganna í úrslitaleik keppninnar þar sem FH tapaði fyrir Víkingi, 1-0.

Á síðasta tímabili lék Daði Freyr einn deildarleik og tvo bikarleiki fyrir FH.

Daði Freyr, sem er 22 ára, gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Þór þegar liðið sækir Gróttu heim í 1. umferð Lengjudeildarinnar annað kvöld.

Þór var spáð 9. sæti Lengjudeildarinnar í spá forráðamanna, þjálfara og fyrirliða liðanna í deildinni.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.