Enski boltinn

Chelsea gæti unnið tvær Meistaradeildir í vor fyrst allra liða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pernille Harder og Mason Mount fagna marki fyrir sín lið. Chelsea er að gera frábæra hluti hjá bæði körlum og konum á þessu tímabili.
Pernille Harder og Mason Mount fagna marki fyrir sín lið. Chelsea er að gera frábæra hluti hjá bæði körlum og konum á þessu tímabili. Samsett/Getty

Það er gaman að vera stuðningsmaður Chelsea þessa dagana því bæði lið félagsins eru að gera frábæra hluti og gætu hlaðið á sig titlum á næstu vikum.

Það er ekki nóg með að karlaliðið sé komið bæði í úrslitaleik Meistaradeildarinnar sem og í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar þá á kvennaliðið möguleika á því að vinna fernuna í fyrsta sinn.

Þetta er í fyrsta sinn sem sama félag á lið í úrslitum bæði Meistaradeildar karla og Meistaradeildar kvenna og það yrði því auðvitað mjög sögulegt ef bæði liðin fagna sigri og vinna þessa eftirsóttu titla í vor.

Chelsea konurnar komust í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn á dögunum eftir að hafa slegið út Bayern München. Þær hafa þegar tryggt sér sigur í enska deildarbikarnum og eru á toppi ensku deildarinnar. Þá er liðið í átta liða úrslitum enska bikarsins.

Liðið vann mikilvægan sigur í gær en Chelsea steig þá skref í átta að því að vinna ensku úrvalsdeildina með því að vinna 2-0 útisigur á Tottenham. Chelsea er með tveggja stiga forskot á Manchester City. Ástralinn Sam Kerr skoraði bæði mörkin og er markahæst í deildinni.

Knattspyrnustýran Emma Hayes er búin að byggja upp frábært lið hjá Chelsea en síðustu misseri hefur liðið styrkt sig með afbragðs knattspyrnukonum eins og hinni dönsku Pernille Harder og auðvitað Sam Kerr.

Thomas Tuchel hefur breytt öllu hjá karlaliðinu síðan að hann tók við af Frank Lampard en á aðeins nokkrum mánuðum hefur Chelsea breyst úr að því virtist miðlungsliði í lið sem vann sannfærandi sigur á Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Chelsea getur unnið tvær Meistaradeildir í vor. Úrslitaleikur stelpnanna fer fram í Gautaborg í Svíþjóð 16. maí næstkomandi þar sem liðið mætir Barcelona. Daginn áður mætir karlaliðið Leicester City á Wembley í úrslitaleik enska bikarsins en úrslitaleikur Meistaradeildar karla fer fram í Istanbul í Tyrklandi 29. maí þar sem Chelsea mætir Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×