Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Ákvörðunin um að stíga til hliðar er ekki auðveld en hún er mín

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Páll Sigmundsson hafði verið lengst allra þjálfara í Pepsi Max-deildinni með sitt lið.
Rúnar Páll Sigmundsson hafði verið lengst allra þjálfara í Pepsi Max-deildinni með sitt lið. vísir/bára

Rúnar Páll Sigmundsson, fráfarandi þjálfari Stjörnunnar, tjáði sig um brotthvarf sitt frá félaginu á Facebook í dag.

Fyrr í dag bárust þær fréttir úr Garðabænum að Rúnar Páll væri hættur sem þjálfari Stjörnunnar eftir átta ára farsælt starf. Hann gerði Stjörnuna að Íslandsmeisturum 2014 og bikarmeisturum 2018.

Í færslu sinni segir Rúnar Páll að ákvörðunin að hætta hjá Stjörnunni hafi ekki verið auðveld en hann hafi átt frumkvæðið að henni. Hann hafi notið skilnings hjá félaginu sem hann kveðji sáttur.

Rúnar Páll kveðst stoltur að hafa skrifað nýjan kafla í sögu Stjörnunnar með titlunum tveimur og góðu gengi liðsins í Evrópukeppnum. Þá segist hann ekki í nokkrum vafa um að framtíð Stjörnunnar sé björt.

Færsla Rúnars Páls

Allt hefur sinn tíma. Eftir níu frábær ár hjá Stjörnunni hef ég ákveðið að láta gott heita í bili. Árin mín hjá Stjörnunni hafa verið lærdómsrík og þroskandi – bæði fyrir mig og félagið. Ég er stoltur af því að hafa skrifað nýja kafla í sögu félagsins með því að stýra því til fyrsta meistaratitla í karlafótboltanum og evrópuævintýrunum okkar eftirminnilegu. 

Það er von mín og vissa að framtíð Stjörnunnar sé björt. Mér er efst í huga þakklæti til núverandi og fyrrverandi leikmanna sem og stuðningsmanna Stjörnunnar. Ég vil þakka Stjörnumönnum fyrir tímann og traustið sem mér hefur verið sýnt. Ákvörðunin um að stíga til hliðar er ekki auðveld, en hún er mín og naut ég fulls skilnings á henni hjá félaginu. Ég kveð sáttur og bíð spenntur þeirra verkefna sem síðar kunna að bíða mín. 

Skíni Stjarnan!

Ekki hefur náðst í Rúnar Pál í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×