Íslenski boltinn

Óvenju fljótar heim með stigin úr Eyjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þór/KA stelpur er þegar búnar að jafna árangur sinn frá því í fyrrasumar þegar þær unnu bara einn útileik.
Þór/KA stelpur er þegar búnar að jafna árangur sinn frá því í fyrrasumar þegar þær unnu bara einn útileik. Vísir/Vilhelm

Þór/KA varð fyrsta liðið til að fagna sigri í Pepsi Max deild kvenna í sumar þegar liðið vann 2-1 sigur á ÍBV í Vestmanneyjum í gærkvöldi.

ÍBV skoraði reyndar fyrsta mark sumarsins en mörk frá Huldu Ósk Jónsdóttur og Karen Maríu Sigurgeirsdóttur tryggðu gestunum 2-1 sigur og öll þrjú stigin.

Þór/KA liðinu gekk afar illa á útivelli í fyrra þar sem liðið vann aðeins einn af átta leikjum og það var aðeins fallið KR sem fékk færri stig á útivelli.

Norðankonur hafa oftast þurft að keyra suður og þessi fimm tíma bílferð hefur örugglega tekið sinn toll fyrir þessa útileiki.

Það var alveg hægt að sjá fyrir sér langt ferðalag til Eyja. Langa rútuferð og svo bátsferð ofan á það.

Það var hins vegar ekkert slíkt í gangi í gær en þetta var mjög þægilegt ferðalag fyrir Þór/KA frá Akureyri til Vestmannaeyja og aftur til baka.

Að þessu sinni flaug allur hópurinn með Norlandair til Eyja og aftur til baka. Þór/KA stelpurnar voru því óvenju fljótar heim með stigin úr Eyjum.

„Þrjú stig heim í kvöldfluginu með Norlandair!,“ sagði í færslu á Instagram síðu Þór/KA stelpnanna. Eggert Sæmundsson, flugstjóri hjá Norlandair,  tók  mynd af stelpunum eins og sjá má hér fyrir ofan.

Þær eru vanalega að skila sér heim úr útileikjum um miðja nótt en það var ekkert slíkt á dagskránni í gærkvöldi. Þær skiluðu sér heim á Akureyri rétt fyrir klukkan tíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×