Erlent

Stærðarmunur á forsetahjónum vekur furðu

Kjartan Kjartansson skrifar
Myndin sem vakti kátínu og furðu netverja, frá vinstri: Jill Biden, Jimmy Carter, Rosalynn Carter og Joe Biden.
Myndin sem vakti kátínu og furðu netverja, frá vinstri: Jill Biden, Jimmy Carter, Rosalynn Carter og Joe Biden. Hvíta húsið/Carter-miðstöðin

Mynd af forsetahjónum Bandaríkjanna með Jimmy Carter, fyrrverandi forseta, og Rosalynn eiginkonu hans, hefur vakið mikla furðu og kátínu á samfélagsmiðlum. Á henni virðast Biden-hjónin eins og risar við hlið Carter-hjónanna en allt á það sér þó einfaldari skýringar.

Joe og Jill Biden, núverandi forsetahjón Bandaríkjanna, heimsóttu Carter-hjónin á heimili þeirra í Georgíu fyrir helgi. Eftir heimsóknina birtu Hvíta húsið og Carter-miðstöðin mynd sem var tekin af því tilefni þar sem Biden-hjónin krjúpa við hlið Carter-hjónanna sem sitja í hægindastólum. Á henni virðast Biden-hjónin gnæfa yfir nær dvergvöxnum Carter-hjónunum.

Netverjar og aðrir gárungar furðuðu sig fljótt á stærðarmuninum. Washington Post segir að í morgun hafi fleiri en þrettán þúsund manns deilt myndinni á samfélagsmiðlinum Twitter með spurningum um hvort að Biden-hjónin séu risar, Carter-hjónin agnarsmá og hvort að myndin hafi verið tekin í leikmyndinni fyrir kvikmyndirnar um Hobbitana, ættbálk smávaxins mannfólks í söguheimi Hringadróttinssögu eftir J.R.R. Tolkien.

Bandaríska blaðið bendir þó á að svarið sé einfaldara en svo. Hæðarmunur er á Biden-hjónunum og Carter-hjónunum en þau fyrrnefndu eru þó nokkuð hærri. Þá eru Carter-hjónin eldri en núverandi forsetahjónin. Jimmy Carter er 96 ára og Rosalynn er 93 ára. Þekkt er að fólk skreppur saman með aldrinum.

Fleira spilar þó inn í sem tengist myndatökunni sjálfri. Bæði virðist myndin hafa verið tekin með víðri linsu og miklu blossaljósi.

Þrátt fyrir að Biden forseti krjúpi töluvert fyrir framan Rosalynn Carter dragi blossaljósið úr skuggum sem leika lykilhlutverk í dýptarskynjum á ljósmyndum. Þannig virðast þau hlið við hlið á myndinni. Víð linsan, sem líklega var notuð til að ná hjónunum saman í þröngu rými á einni mynd, ýkir þau áhrif.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×