Íslenski boltinn

Með yfir 100 leiki í ensku úrvalsdeildinni og spilar með Fram í sumar

Sindri Sverrisson skrifar
Danny Guthrie hefur skrifað undir samning við Fram. Hann er ekki mættur til landsins Framarar létu það ekki stöðva sig í að teikna hann upp í Frambúning.
Danny Guthrie hefur skrifað undir samning við Fram. Hann er ekki mættur til landsins Framarar létu það ekki stöðva sig í að teikna hann upp í Frambúning. mynd/Fram

Danny Guthrie, fyrrverandi leikmaður Newcastle og fleiri liða, er búinn að semja við knattspyrnudeild Fram um að leika með liðinu í Lengjudeildinni í sumar.

Þetta verða að teljast afar merkileg tíðindi en Guthrie á að baki yfir 100 leiki í ensku úrvalsdeildinni og um 150 leiki í næstefstu deild Englands.

Guthrie er 34 ára gamall miðjumaður og þekktastur fyrir tíma sinn hjá Newcastle og Reading. Hann er hins vegar uppalinn hjá Manchester United og Liverpool.

Guthrie kemur til Íslands í vikunni og fer í sóttkví en hefur svo æfingar í Safamýrinni.

„Kom óvænt upp“

Guthrie lék síðast með liði Walsall í ensku D-deildinni og spilaði þar 13 leiki fyrir áramót. Síðasti leikur hans var í janúar. Hann hefur einnig leikið með Blackburn, Fulham, Reading, Bolton, Southampton og Liverpool þar sem hann hóf atvinnumannssferil sinn.

„Þetta mál kom óvænt upp á borð hjá okkur og þótti okkur þetta vera mjög spennandi kostur,“ segir Jón Sveinsson, þjálfari Framara.

„Það var erfitt að sleppa þessu tækifæri og við vonumst til að hann með sína reynslu og karakter komi sterkur inn í öflugan hóp. Ég efast ekki um að hann muni ýta mönnum upp á tærnar og vera góð viðbót við gott lið. FRAMtíðin mun leiða það í ljós,“ segir Jón í fréttatilkynningunni.

Guthrie segir í fréttatilkynningunni: „Ég er í skýjunum með að ganga til liðs við Fram, félag með stórkostlega sögu. Ég get ekki beðið eftir því að komast til Íslands, hitta þjálfarann minn og nýju liðsfélagana, og leggja hart að mér til að komast í gott form og byrja að spila og vinna leiki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×