Erlent

Breskir læknar að bugast undan álaginu og margir íhuga að hætta

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Álagið á heilbrigðisstarfsmenn hefur verið gríðarlegt í kórónuveirufaraldrinum.
Álagið á heilbrigðisstarfsmenn hefur verið gríðarlegt í kórónuveirufaraldrinum. epa/Steve Parsons

Þúsundir breskra lækna íhuga að láta af störfum í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Helstu ástæðurnar eru gríðarlegt álag og áhyggjur af andlegu heilbrigði. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar á vegum Bresku læknasamtakanna (BMA).

Einn af hverju þremur veltir því fyrir sér að fara fyrr á eftirlaun og fjórðungur getur hugsað sér að taka sér hlé frá störfum. Þá hefur fimmtungur íhugað að snúa sér að öðru en heilbrigðisþjónustu.

Mikil álag, langar vaktir, bágar vinnuaðstæður og áhrif faraldursins eru meðal þess sem hefur dregið úr starfsánægju lækna. 

Af 4.258 sem tóku þátt sögðust 1.352 telja líklegra nú en fyrir tólf mánuðum að þeir myndu fara fyrr á eftirlaun. Um er að ræða 32 prósent þátttakenda en þegar sama spurning var lögð fyrir læknana í júní 2020 var hlutfallið 14 prósent.

Um 25 prósent sögðust íhuga að taka sér pásu frá læknastörfum, 21 prósent sögðust velta fyrir sér að skipta um starfsvettvang og 17 prósent voru spenntir fyrir því að starfa erlendis.

Chaand Nagpaul, formaður BMA, segir hættu á því að þessi starfsþreyta meðal lækna muni verða til þess að enn erfiðara verður að manna stöður og veita þjónustu innan ásættanlegra tímamarka.

Um sé að ræða hæfileikaríka og reynda sérfræðinga sem opinbera heilbrigðisþjónustan þurfi á að halda til að koma þjóðinni úr einni mestu heilbrigðisvá samtímans.

„Ég klára yfirleitt tveimur tímum eftir að ég á að hætta,“ sagði einn læknir í samtali við BMA. „Restin af deginum fer í að svara tölvupóstum sem ég náði ekki að sinna í vinnunni. Ég er úrvinda.“

Læknirinn sagði að honum þætti vænt um opinberu heilbrigðisþjónustuna en að á einhverjum tímapunkti þyrfti hann að fara að forgangsraða eigin andlegu og líkamlegu heilsu.

Guardian fjallar um málið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.