Erlent

Co­vid-pakki ESB í ó­vissu vegna erja á finnska stjórnar­heimilinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikið mæðir nú á Sönnu Marin, forsætisráðherra Finnlands og leiðtoga sósíaldemókrata, að halda lífi í fimm flokka samsteypustjórn landsins.
Mikið mæðir nú á Sönnu Marin, forsætisráðherra Finnlands og leiðtoga sósíaldemókrata, að halda lífi í fimm flokka samsteypustjórn landsins. Vísir/EPA

Deilur innan finnsku ríkisstjórnarinnar tefla nú efnahagsaðgerðapakka Evrópusambandsins vegna kórónuveirufaraldursins í tvísýnu. Öll aðildarríkin þurfa að samþykkja pakkann en finnska stjórnin er sögð ramba á barmi falls.

Flokkarnir fimm af miðju og vinstri væng finnskra stjórnmála sem sitja saman í ríkisstjórn reyna nú að koma sér saman um fjárlög og efnahagsinnspýtingu til að koma hjólum efnahagslífsins á hreyfingu. Viðræður flokkanna hafa nú staðið yfir í viku án árangurs en þær áttu upphaflega aðeins að taka tvo daga, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Annika Saarikko, leiðtogi Miðflokksins og vísinda- og menningarmálaráðherra, er sögð hafa tilkynnt Sönnu Marin, forsætisráðherra, að flokkur hennar ætlaði að slíta stjórnarsamstarfinu nýlega. Marin neitar því að það hafi gerst, þrátt fyrir frásagnir finnskra fjölmiðla þess efnis. Engu að síður hafði Saarikko sagt fjölmiðlum að hún væri að missa trúna á stjórnarsamstarfið.

Miðflokknum hefur greint á við samstarfsflokkana um ýmis málefni, þar á meðal atvinnuleysisbætur, sköpun starfa og bætur til móframleiðenda sem hafa tapað spóni úr aski sínum, og hefur hafnað nokkrum tillögum Marin að málamiðlun.

Aukinn meirihluti þingmanna á finnska þinginu þarf að samþykkja aðgerðapakka ESB eftir að þingnefnd komst að þeirri niðurstöðu að stjórnarskrá landsins krefðist þess, að sögn finnska ríkisútvarpsins YLE. Fulltrúar Miðflokksins eru sagðir hafa ráðið úrslitum í nefndinni. Hann er sagður undir þrýstingi frá hægri frá Sönnum Finnum, sem eru gagnrýnir á Evrópusamstarfið, í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga í sumar.

Hinir ríkisstjórnarflokkarnir fjórir: Sósíaldemókrataflokkurinn, Vinstribandalagið, Græningjar og Sænski þjóðarflokkurinn, eru sagðir styðja aðgerðapakkann. Óljóst er hver afdrif aðgerðapakka ESB verða falli finnska stjórnin og boða þarf til nýrra kosninga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×