Erlent

Nálgast það að 200 þúsund manns hafi látist vegna Covid-19

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Heilbrigðisstarfsmenn fá þjálfun í neyðarmiðstöð sem verið er að setja upp í Mumbai. Hefðubundin sjúkrahúsrými eru yfirfull.
Heilbrigðisstarfsmenn fá þjálfun í neyðarmiðstöð sem verið er að setja upp í Mumbai. Hefðubundin sjúkrahúsrými eru yfirfull. epa/Divyakant Solanki

Indverjar nálgast nú hraðbyri þann sorglega áfanga að þar hafi 200 þúsund manns látið lífið af völdum kórónuveirunnar, svo staðfest sé.

Um 2.700 létu lífið síðasta sólarhringinn í landinu og herinn hefur lofað auknum aðgerðum til að reyna að stemma stigu við hinni miklu útbreiðslu sem virðist vera í landin nú um stundir. 

Rúmlega 323 þúsund ný tilfelli voru staðfest á síðasta sólarhring, sem er aðeins undir metinu sem sett var daginn áður, þegar 352 þúsund greindust. 

Sérfræðingar bæta þó við að þetta gefi ekki tilefni til bjartsýni, heldur hafi mun færri sýni verið tekin sem útskýri muninn. Spítalar eru víða hættir að geta tekið við nýjum sjúklingum vegna skorts á sjúkrarúmum og súrefni.

Neyðarsending frá Bretum barst til Delí snemma í morgun en um var að ræða hundrað öndunarvélar og 95 súrefnisþjöppur. Þá bárust 70 tonn af súrefni til höfuðborgarinnar og von er á aðstoð frá Frakklandi.

Miðað við ástandið eru bjargirnar þó aðeins dropi í hafið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×