Erlent

Bandaríkjaher leggur leitinni að kafbátnum lið

Kjartan Kjartansson skrifar
Hermaður festir upp myndir af skipverjunum sem er saknað á töflu í stjórnstöð á Balí.
Hermaður festir upp myndir af skipverjunum sem er saknað á töflu í stjórnstöð á Balí. Vísir/EPA

Flugvélar Bandaríkjahers er nú á leiðinni til að aðstoða við leit að indónesískum kafbáti sem hvarf með 53 manna áhöfn við æfingar norður af Balí á miðvikudag. Aðeins nokkrar klukkustundir eru taldar til stefnu áður en súrefnið í kafbátnum er á þrotum.

Indónesíski herinn sagðist í gærkvöldi hafa fundið merki um fyrirbæri á fimmtíu til hundrað metra dýpi og hefði sent skip með hljóðsjá til þess að kanna hvort að þar sé á ferðinni KRI Nanggala 402-kafbáturinn sem hefur verið saknað frá því á miðvikudag.

Talsmaður hersins segir að allt kapp verði lagt á að finna bátinn í dag þar sem talið sé að súrefnistankar hans tæmist í nótt. Sex herskip, þyrla og um fjögur hundruð manns hafa tekið þátt í leitinni til þessa. Stjórnvöld í Singapúr og Malasíu hafa sent skip til að aðstoða við leitina en Ástralir, Frakkar og Þjóðverjar hafa einnig boðið fram hjálp.

Olíuslikja sem fannst á þeim slóðum þar sem talið er að kafbáturinn hafi kafað er sögð vísbending um að eldsneytistankur hans gæti hafa orðið fyrir hnjaski, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Kafbáturinn er þýskur, smíðaður seint á 8. áratug síðustu aldar. Hann er einn fimm kafbáta indónesíska hersins og var tekinn í gegn í Suður-Kóreu árið 2012.


Tengdar fréttir

Leita horfins kafbáts við Balí

Indónesíski sjóherinn leitar nú að kafbáti með á sjötta tug manna um borð sem hvarf við æfingar norður af eyjunni Balí. Óskað hefur verið eftir aðstoð yfirvalda í Ástralíu og Singapúr við leitina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×