Erlent

Metfjöldi tilfella á heimsvísu og skortur á súrefni á Indlandi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Ekki hefur aðeins borið á súrefnisskorti á Indlandi heldur einnig á sjúkrarúmum. 
Ekki hefur aðeins borið á súrefnisskorti á Indlandi heldur einnig á sjúkrarúmum.  EPA-EFE/DIVYAKANT SOLANKI

Hátt í 315 þúsund greindust með covid-19 á Indlandi síðasta sólarhringinn, sem er metfjöldi á einum degi, ekki aðeins á Indlandi heldur í heiminum öllum. Þá létust 2.104 úr covid-19 á Indlandi í gær sem er einnig met í fjölda dauðsfalla á einum degi í landinu.

BBC greinir frá en þetta þýðir að nú hafa alls hátt í sextán milljónir smitast af veirunni á Indlandi sem er næst mesti fjöldi í heimi á eftir Bandaríkjunum þar sem hátt í 32 milljónir hafa greinst með veiruna.

Indland glímir nú við kröftuga aðra bylgju faraldursins og hefur skortur á súrefni til súrefnisgjafar vakið frekari ótta um yfirþyrmandi álag á heilbrigðiskerfið. Ástandið hefur leitt til þess að hæstiréttur í borginni Delí hefur opinberlega gagnrýnt yfirvöld fyrir að taka ekki til nauðsynlegra aðgerða vegna súrefnisskorts í borginni.

„Þetta er fáránlegt. Við viljum vita hvað miðstjórnin er að gera varðandi súrefnisbirgðir á Indlandi,“ er haft eftir úr yfirlýsingu dómara við réttinn í tengslum við áskorun frá eigendum sex einkarekinna sjúkrahúsa sem kom til kasta dómstóla.

Rétturinn fyrirskipaði yfirvöldum að tryggja örugga flutninga súrefnisbirgða frá framleiðslustöðum og á sjúkrahús um landið. Nokkrir hafa látist úr sjúkdómnum á meðan það beið þess að fá súrefni en ekki liggur fyrir hversu margir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×