Erlent

Fjöldi mótmælenda handtekinn í Rússlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn settu upp girðingar til að hefta för stuðningsmanna Navalní í Moskvu í dag.
Lögreglumenn settu upp girðingar til að hefta för stuðningsmanna Navalní í Moskvu í dag. Vísir/EPA

Rússneska lögreglan hefur handtekið hátt í tvö hundruð manns sem tóku þátt í mótmælum til stuðnings Alexei Navalní, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í landinu, í dag. Mótmælendur kröfðust þess að Navalní fengi viðunandi læknisþjónustu í fangelsi en læknar hans segjast óttast um líf hans.

Mótmæli voru skipulögð um allt Rússland í dag, sama dag og Vladímír Pútín forseti hélt árlega stefnuræðu sína. Hann minntist ekki á Navalní eða mótmælin í ræðu sinni í morgun.

Reuters-fréttastofan segir að OVD-Info, samtök sem fylgjast með mótmælum og handtökum í Rússlandi, telji 199 manns sem hafa verið handteknir á mótmælum á tugum staða í dag. Þau búast við því að sú tala fari hækkandi.

Tugir lögreglubíla voru í miðborg Moskvu og lokuðu lögreglumenn torgi þar sem mótmælendur ætluðu að koma saman og Rauða torginu með málmgirðingu. Stuðningsmenn Navalní sögðust þá ætla að koma saman á tveimur öðrum stöðum í borginni.

Nánir samverkamenn Navalní voru handteknir í morgun, þar á meðal talskona hans og einn stjórnenda vinsællar Youtube-rásar hans. Rússnesk stjórnvöld telja mótmælin ólögleg en þau leyfa takmarkað andóf gegn sér. Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, fordæmdi handtökurnar í dag.


Tengdar fréttir

Pútín segir vesturlöndum að halda sig á mottunni

Stjórnvöld í Kreml ætla sér að bregðast harkalega við ef þau telja vestræn ríki fara yfir strikið gagnvart þeim. Þetta sagði Vladímír Pútín, forseti Rússlands, í stefnuræðu í morgun þar sem hann sakaði vestræn ríki ennfremur um aðild að „valdaránstilraun“ í Hvíta-Rússlandi.

Bandamenn Navalní handteknir í aðdraganda mótmæla

Rússneska lögreglan handtók Kiru Jarmysh, talskonu Alexeis Navalní, og fleiri bandamenn hans í dag. Handtökurnar eru taldar tengjast mótmælum sem boðað hefur verið til um allt landið til stuðnings Navalní sem dúsir í fangelsi við slæma heilsu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.