Íslenski boltinn

Arnar með óuppsegjanlegan samning við Víkinga

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Gunnlaugsson [t.h.] skrifaði undir nýjan samning við Víking í dag.
Arnar Gunnlaugsson [t.h.] skrifaði undir nýjan samning við Víking í dag. Vísir/Sigurjón

Knattspyrnuþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson hefur framlengt samning sinn við Víking um að þjálfa karlalið félagsins. Arnar mun samkvæmt samningnum stýra Víkingi næstu þrjú tímabil, eða út tímabilið 2023.

Í tilkynningu frá Víkingi segir að samningurinn sé óuppsegjanlegur af beggja hálfu, rétt eins og fyrri samningur Arnars. Lýst er yfir mikilli ánægju með störf Arnars í tilkynningunni og þar segir:

„Allt frá fyrstu æfingu hefur Arnar lagt áherslu á að Víkingur spili jákvæðan fótbolta og innleitt nýjar áherslur í leik liðsins. Undir stjórn Arnars hefur liðið tekið miklum framförum og vakið verðskuldaða athygli. Ungir leikmenn hafa fengið stór hlutverk í liðinu og Arnar hefur fylgt sinni sannfæringu og stefnu frá upphafi, hvort sem er í velgengni eða þegar á móti hefur blásið.“

Arnar var ráðinn þjálfari Víkings til tveggja ára haustið 2018. Hann tók við liðinu af Loga Ólafssyni eftir að hafa verið aðstoðarmaður hans.

Undir stjórn Arnars varð Víkingur bikarmeistari árið 2019. Það var fyrsti titill Víkinga í 29 ár. Þar sem bikarkeppnin var ekki kláruð í fyrra eru Víkingar enn ríkjandi bikarmeistarar.

Víkingur endaði í 7. sæti Pepsi Max deildarinnar með 28 stig árið 2019, á fyrstu leiktíð sinni undir stjórn Arnars. Í fyrra var liðið svo í 10. sæti, því þriðja neðsta, þegar mótið var flautað af eftir 18 umferðir.

Arnar var áður aðstoðarþjálfari KR árin 2016 og 2017 og hann var spilandi aðalþjálfari ÍA, ásamt Bjarka bróður sínum, árin 2008 og 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×