Erlent

Ófyrirséð afleiðing Covid-19: „Við erum að verða uppiskroppa með sæði“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar

Þegar kórónuveirufaraldurinn braust út voru brögð að því að salernispappír og aðrar nauðsynjar væru hamstraðar. Nú er kominn upp óvæntur, og ef til vill ófyrirséður skortur í Svíþjóð:

„Við erum að verða uppiskroppa með sæði,“ segir Ann Thurin Kjellberg, yfirmaður frjósemismeðferða hjá háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg.

Skortinn má rekja til þess að gjöfum hefur fækkað snarlega vegna kórónuveirufaraldursins en vegna hans hefur bið eftir frjósemismeðferð lengst úr sex mánuðum í 30 mánuði.

„Það er streituvaldandi að geta ekki fengið fasta tímasetningu eða dagsetningu fyrir meðferð,“ segir Elin Bergsten, 28 ára stærðfræðikennari. Eiginmaður hennar framleiðir ekki sæði og nú hefur meðferð Elinar verið sett á frest vegna sæðisskortsins.

Thurin Kjellberg segir skortinn á landsvísu; sæðisbirgðirnar séu uppurnar í Gautaborg og Malmö og klárist brátt í Stokkhólmi.

Einkastofur komast hjá vandanum með því að kaupa sæði erlendis frá en það hefur í för með sér aukinn kostnað, sem getur numið allt að 1,5 milljónum íslenskra króna. 

Samkvæmt Reuters má hver gjafi aðeins feðra börn sex kvenna og flestir gjafar hafa náð þessu hámarki nú þegar. Þannig stendur aðeins konum sem hafa þegar eignast börn með gjafasæði, sama sæði til boða.

Margareta Kitlinski, yfirmaður frjósemismeðferða hjá háskólasjúkrahúsinu á Skáni, segir það taka um átta mánuði að samþykkja nýjan gjafa og þá ónýtast margir sæðisskammtar vegna algengra vandamála við frystingu.

„Ef 50 menn hafa samband þá verða í besta falli helmingur þeirra gjafar.“

Sums staðar hafa yfirvöld auglýst eftir gjöfum á samfélagsmiðlum en Thurin Kjellberg segir sjónvarpið næsta kost til að vekja athygli á vandamálinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×