Íslenski boltinn

Guðjón Pétur til Eyja

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðjón Pétur við komuna til Eyja.
Guðjón Pétur við komuna til Eyja. heimasíða ÍBV

Guðjón Pétur Lýðsson er genginn í raðir ÍBV frá Breiðabliki og hefur skrifað undir tveggja ára samning.

Guðjón Pétur var á láni hjá Stjörnunni á síðustu leiktíð en mun spila með ÍBV í B-deildinni á næstu leiktíð.

„Var viðskilnaður hans við félagið [Breiðablik] góður og er Guðjón gríðarlega spenntur fyrir því sem framundan er í Vestmannaeyjum,“ segir í frétt á heimasíðu ÍBV.

Einnig hefur Guðjón leikið með Haukum, Val og Álftanesi á Íslandi en hann spilaði einnig í atvinnumennsku í Svíþjóð.

Guðjón Pétur varð Íslandsmeistari með Val árin 2017 og 2018 en hann er 33 ára miðjumaður með mikla reynslu.

Eyjamenn hafa því fengið vænan liðsstyrk fyrir komandi leiktíð í fyrstu deildinni en Helgi Sigurðsson er við stýrið í Eyjum.

Eiður Aron Sigurbjörnsson, fyrrum leikmaður Vals, er einnig búinn að semja við ÍBV en ÍBV fór í undanúrslit Mjólkurbikarsins á síðustu leiktíð.

Bikarinn var svo blásinn af sem og Íslandsmótið þar sem ÍBV var í sjötta sæti Lengjudeildarinnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×