Erlent

Rassía á heimili blaðamanns sem afhjúpaði vellystingar Kremlarvina

Kjartan Kjartansson skrifar
Vladímír Pútín Rússlandsforseti (t.v.) með Igor Setsjin, forstjóra Rosneft og fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra. Anin fjallaði um auðævi Setsjin og konu hans árið 2016 en sakamálarannsókn hefur staðið yfir síðan þá.
Vladímír Pútín Rússlandsforseti (t.v.) með Igor Setsjin, forstjóra Rosneft og fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra. Anin fjallaði um auðævi Setsjin og konu hans árið 2016 en sakamálarannsókn hefur staðið yfir síðan þá. Vísir/Getty

Rússneska lögreglan handtók þekktan rannsóknarblaðamann og lagði hald á síma, raftæki og gögn í rassíu á heimili hans. Dagblað sem hefur birt umfjallanir blaðamannsins segir að lögregluaðgerðin sé hefnd vegna rannsókna hans á áhrifafólki sem tengist stjórnvöldum í Kreml.

Rassían í gær tengist frétt Romans Anin um Igor Setsjin, náinn bandamann Vladímírs Pútín forseta, og eiginkonu hans árið 2016. Eiginkona Setsjin hafði þá sést á glæsisnekkju sem var metin á hundrað milljónir dollara, jafnvirði hátt í þrettán milljarða íslenskra króna. 

Setsjin, sem er yfirmaður ríkisolíufélagsins Rosneft, höfðaði síðar meiðyrðamál sem hann vann en hann taldi fréttina hafa skaðað orðspor sitt. Novaya Gazeta var gert að draga fréttina til baka.

Anin, sem stofnaði fréttavefinn iStories og var einn rússnesku fréttamannanna sem fjölluðu um Panamaskjölin svonefndu, var skeið vitni í sakamálarannsókn lögreglu á meintum persónuverndarbrotum í tengslum við umfjöllunina en hann hefur aldrei verið ákærður.

Lögreglan tók málið skyndilega aftur upp og lét til skarar skríða á heimili Anin í gær. Handtók hún Anin og yfirheyrði stuttlega, að sögn The Guardian

Ritstjórn dagblaðsins Novaya Gazeta segir að aðgerðir lögreglu nú og í fleiri málum séu hefnd gegn Anin.

Vefsíða Anin hefur meðal annars birt tölvupósta frá fyrrverandi tengdasyni Pútín sem sýndu hvernig ein dætra forsetans lifði í vellystingum. Í síðasta mánuði fjallaði iStories um meint tengsl háttsetts stjórnanda innan leyniþjónustunnar FSB og skipulagðrar glæpastarfsemi.

Lögmaður Anin segir að hann hafi neitað að svara spurningum lögreglu. AP-fréttastofan segir að lögreglan ætli sér að yfirheyra hann öðru sinni á mánudag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.