Erlent

Telja að gagnrýnandi Pútín hafi verið kyrktur

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá morðvettvangi í London í mars árið 2018.
Frá morðvettvangi í London í mars árið 2018. Vísir/EPA

Nikolai Glushkov, rússneskur athafnamaður og gagnrýnandi Vladímírs Pútín Rússlandsforseta, er talinn hafa verið kyrktur í London í mars árið 2018. Að mati dánardómstjóra í Bretlandi eru vísbendingar um að morðingi Glushkov hafi reynt að láta dauða hans líta út fyrir að hafa verið sjálfsvíg.

Bresk yfirvöld veittu Glushkov pólitískt hæli árið 2010 eftir að rússnesk yfirvöld sökuðu hann um fjársvik þegar hann var aðstoðarforstjóri flugfélagsins Aeroflot. Rússneskur dómstóll dæmdi hann í átta ára fangelsi fyrir stórfelldan fjárdrátt að honum fjarstöddum árið 2017.

Glushkov fannst látinn í New Malden í suðvestanverðri London 12. mars árið 2018. Þann dag átti Glushkov, sem var 68 ára gamall, að koma fyrir dómstól í London til að bera af sér sakir. Hann lést viku eftir að eitrað var fyrir Sergei Skrípal, rússneskum fyrrverandi njósnara, og dóttur hans í bænum Salisbury á Englandi. Talið er að útsendarar rússnesku leyniþjónustunnar hafi verið þar að verki.

Í skýrslu dánardómstjóra kemur nú fram að áverkar á líki Glushkov bendi til þess að haldið hafi verið utan um háls hans og að árásarmaðurinn hafi staðið fyrir aftan hann, að sögn breska ríkisútvarpssins BBC. Svo virðist sem að Glushkov hafi ekki náð að berjast á móti morðingja sínum en engin varnarsár fundust á líkinu.

Enginn hefur verið handtekinn vegna morðsins á Glushkov og ekki er ljóst hvers vegna hann var drepinn. Fjöldi gagnrýnenda Pútín forseta, andófsfólks og blaðamanna hefur hins vegar látið lífið við voveiflegar aðstæður á tveggja áratuga valdatíð rússneska forsetans.

Glushkov var náinn vinur Borisar Berezovskí, rússnesks auðkýfings og harðs gagnrýnanda Pútín. Hann fannst hengdur á heimili sínu í Berkshire á Englandi árið 2013. Ekki liggur fyrir hvernig dauða hans bar að.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.