Erlent

Upp­lýsingar Ís­­lendinga í stórum gagna­­leka hjá Face­­book

Eiður Þór Árnason skrifar
Gagnaöflun Facebook um notendur sína gerir fyrirtækið gjarnan að skotmarki netþrjóta sem vilja ólmir komast yfir persónuupplýsingar almennings.
Gagnaöflun Facebook um notendur sína gerir fyrirtækið gjarnan að skotmarki netþrjóta sem vilja ólmir komast yfir persónuupplýsingar almennings. Getty/Hakan Nural

Per­sónu­upp­lýs­ingar 533 millj­óna not­enda Facebook frá 106 löndum hafa verið birtar á netinu. Í gögn­un­um má meðal annars finna nöfn, síma­núm­er, ­staðsetningagögn, fæðingardaga og netföng. Þar er ekki að finna lykilorð eða skilaboð. 

Gagnasafnið hefur verið birt á umræðuvettvangi hakkara en að sögn dreifingaraðilans má þar finna upplýsingar um 31.343 notendur Facebook á Íslandi. Öryggissérfræðingar hafa miklar áhyggjur af því að persónuupplýsingarnar verði notaðar af netglæpamönnum til að reyna að villa á sér heimildir og svindla á fólki.

Í yfirlýsingu frá Facebook segir að um sé að ræða gamlan gagnaleka sem fyrst hafi verið greint frá árið 2019. Fyrirtækið segist þá hafa rakið lekann til hugbúnaðargalla í kerfum Facebook sem sé nú búið að lagfæra. Þó sé erfitt að hafa hemil á dreifingu upplýsinganna eftir að þær sleppa úr fórum samfélagsmiðlarisans.

Gríðarlegt magn gagna

Alon Gal, yfirmaður tæknimála hjá netöryggisfyrirtækinu Hudson Rock, tilkynnti birtingu gagnanna á laugardag. Hann segir á Twitter að óvenjulegt sé að hakkarar dreifi stórum gagnasöfnum úr lekum víða þar sem markmiðið sé gjarnan að reyna að selja aðgang að gögnunum sem lengst. Á endanum komist þó slík gagnasöfn gjarnan í hendurnar á aðilum sem ákveði að birta þau öðrum að endurgjaldslausu og það sé líklega staðan sem sé nú upp komin.

Gal segir að fyrst núna sé hægt að átta sig á heildarumfangi gagnalekans sem átti sér stað hjá Facebook árið 2019 og ástæða sé til að hafa miklar áhyggjur af því að gögnin séu komin í mikla dreifingu.

Business Insider var með fyrstu miðlunum til að greina frá birtingu gagnanna og hefur tekist að sannreyna að fjöldi símanúmera og netfanga tilheyri í raun þeim Facebook notendum sem þau eru tengd í gagnasafninu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.