Enski boltinn

Tuchel bannaði Werner að æfa auka­lega eftir klúðrið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Timo Werner eftir að hafa klúðrað dauðafærinu.
Timo Werner eftir að hafa klúðrað dauðafærinu. Federico Gambarini/Getty

Thomas Tuchel, stjóri Chelsea, segist hafa rekið Timo Werner heim af æfingasvæði Chelsea í gær er þýski leikmaðurinn ætlaði að æfa aukalega eftir æfingu Lundúnarliðsins.

Þýski framherjinn klúðraði rosalegu færi í 2-1 tapi Þýskaland gegn Norður Makedóníu á miðvikudagskvöldið en Werner var fyrir opnu marki. Boltinn flæktist fyrir honum og skotið framhjá.

Mikið grín hefur verið gert að Werner eftir tapið og honum kennt um það en þetta var fyrsta tap Þýskalands í undankeppni HM í tuttugu ár. Tuchel ver þó sinn mann.

„Hann klúðraði færinu og allir eru mjög æstir í að tala um það sem er dálítið pirrandi. Það er auðvelt að benda á Timo og það er ekki eitthvað sem ég mun sætta mig við. Ég er ánægður að hann sé kominn hingað því hér getum við varið hann,“ sagði Tuchel á blaðamannafundi dagsins.

„Þessi gaur hefur skorað síðan hann var fimm ára. Þetta er ekki einu sinni augnablikið til þess að æfa aukalega. Í gær sendi ég hann heim af æfingu því hann vildi æfa aukalega með okkur.“

„Ég sagði: Þú þarft þess ekki, líkami þinn og heili veit hvernig á að skora. Ef kona vill ekki fara með þér út að borða, þá neyðirðu hana ekki til þess að gera það. Þú getur tekið skref aftur á bak og þá kannski hringir hún til baka. Mörkin munu koma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×