Erlent

„Ég var næstum drepinn fyrir að ná mér í gos og poka af kartöfluflögum“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglumaðurinn sem var fyrstur á vettvang, Eric Talley 51 árs, var skotinn til bana. Hann var sjö barna faðir.
Lögreglumaðurinn sem var fyrstur á vettvang, Eric Talley 51 árs, var skotinn til bana. Hann var sjö barna faðir. epa

Lögregluyfirvöld í Colorado í Bandaríkjunum hafa gefið upp nöfn þeirra tíu sem létust þegar byssumaður réðist inn í matvöruverslun í Boulder. Þrír voru á þrítugsaldri, einn á fimmtugsaldri, þrír á sextugsaldri og þrír á sjötugsaldri.

„Ég hélt þetta væri einn öruggasti staðurinn í Bandaríkjunum en ég var næstum drepinn fyrir að ná mér í gos og poka af kartöfluflögum,“ sagði Ryan Borowski í samtali við CNN en hann var inni í versluninni þegar árásin átti sér stað.

Sarah Moonshadow var við afgreiðslukassann ásamt syni sínum þegar skothríðin hófst. Hún sagði við Reuters að hún hefði reynt að koma einu fórnarlambinu til hjálpar, þar sem viðkomandi lá á gangstéttinni fyrir utan. 

Sonur hennar dró hana hins vegar í burtu. „Ég gat ekki hjálpað neinum.“

Árásarmaðurinn heitir Ahmad Al Aliwi Alissa og er 21 árs. Lögregla telur hann hafa verið einan að verki. Ónefndir heimildarmenn innan lögreglunnar segja hann hafa verið vopnaðan AR-15, hálfsjálfvirkum riffli sem hefur áður verið notaður við fjöldamorð í Bandaríkjunum.

Myndir teknar úr lofti sýndu Alissa handjárnaðan og beran að ofan, að því er virtist með áverka á fæti. Hann hefur dvalið á sjúkrahúsi en verður fluttur í fangelsi í dag.

Árásin hefur vakið hörð en misjöfn viðbrögð vestanhafs.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.