Erlent

AstraZeneca kom vel út úr rannsókn í Bandaríkjunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Álitamál hafa verið um hversu góð vernd bóluefni AstraZeneca veitir eldra fólki. Fyrirtækið segir það hafa reynst eldri aldurshópum vel í rannsókn sem það gerði í Bandaríkjunum.
Álitamál hafa verið um hversu góð vernd bóluefni AstraZeneca veitir eldra fólki. Fyrirtækið segir það hafa reynst eldri aldurshópum vel í rannsókn sem það gerði í Bandaríkjunum. AP/Gregorio Borgia

Bóluefni AstraZeneca reyndist veita góð vörn gegn Covid-19 í viðamikilli rannsókn í Bandaríkjunum. Fyrirtækið segir að sérfræðingar þess hafi ekki merkt aukna hættu á blóðtappa sem leiddi til þess að nokkur Evrópuríki stöðvuðu notkun efnisins tímabundið.

Bandarísk lyfjayfirvöld hafa enn ekki veitt heimild fyrir notkun bóluefnis AstraZeneca þar í landi. Rannsókn fyrirtækisins þar var gerð á fleiri en 30.000 sjálfboðaliðum. Samkvæmt niðurstöðum sem fyrirtækið birti veitir efnið 79% vörn gegn einkennum Covid-19 og 100% vernd fyrir alvarlegri sýkingu og sjúkrahúsinnlögn, að sögn AP-fréttastofunnar.

Þá er efnið sagt hafa virkað vel fyrir alla aldurshópa, einnig eldra fólk. Gögn höfðu verið talin skorta um virkni bóluefnisins í eldri aldurshópum. Tveir af hverjum þremur þátttakendum fengu bóluefnið en einn af þremur fékk lyfleysu.

AstraZeneca hefur enn ekki birt öll gögn um rannsóknina. Paul Hunter, prófessor í lyfjafræði við Háskólann í Austur-Anglíu á Englandi, segir við AP að niðurstöðurnar lofi góðu en að hann vilji sjá frekari gögn sem styðji fullyrðingar fyrirtækisins um virkni bóluefnisins.

„En þetta ætti að auka traust á því að bóluefnið geri það sem mest þörf er á,“ segir Hunter.

Til stendur að AstraZeneca afhendi bandarísku lyfjastofnuninni gögn um rannsóknina á næstu vikum. Niðurstöðurnar verða jafnframt birtar í ritrýndu vísindariti.

Bóluefnið og öryggi þess hefur verið í brennidepli að undanförnu eftir að nokkur Evrópuríki, þar á meðal Ísland, stöðvuðu notkun þess tímabundið þegar tilkynnt var um tilfelli blóðtappa í fólki sem hefði fengið efnið. Lyfjastofnun Evrópu gaf grænt ljós á áframhaldandi notkun efnisins á fimmtudag.


Tengdar fréttir

Lyfjastofnun Evrópu gefur AstraZeneca grænt ljós

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) segir að bóluefni AstraZenica sé öruggt og skilvirkt. Að kostir þess skyggi á áhættu og að notkun þess feli ekki í sér aukna áhættu á blóðtöppum. Frekari rannsókna væri þó þörf.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.