Erlent

Lyfjastofnun Evrópu gefur AstraZeneca grænt ljós

Samúel Karl Ólason skrifar
Heilbrigðisstarfsmaður í Belgíu undirbýr bólusetningu með bóluefni AstraZeneca.
Heilbrigðisstarfsmaður í Belgíu undirbýr bólusetningu með bóluefni AstraZeneca. Getty/Jean Christophe

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) segir að bóluefni AstraZenica sé öruggt og skilvirkt. Að kostir þess skyggi á áhættu og að notkun þess feli ekki í sér aukna áhættu á blóðtöppum. Frekari rannsókna væri þó þörf.

Þrettán Evrópusambandsríki, samkvæmt talningu BBC, hafa hætt notkun bóluefnisins vegna tilkynninga um blóðtappa hjá fólki eftir bólusetningar. Ísland og Noregur hafa einnig hætt notkun bóluefnisins tímabundið.

Emer Cooke, yfirmaður EMA, sagði á blaðamannafundi í dag að rannsókn stofnunarinnar hefði leitt í ljós að ekki væri hægt að útiloka tengsl á milli blóðtappa og bóluefnisins. Hins vegar þyrfti að rannsaka það frekar og ítrekaði hún að bóluefnið væri öruggt og virkaði gegn Covid-19 í minnst 60 prósenta tilfella.

Yfirmaður WHO í Evrópu hvatti Evrópuríki til þess að halda notkun bóluefnisins áfram í dag.

Dr Sabina Strauss, yfirmaður bóluefnaöryggisdeildar EMA, sagði engar vísbendingar um galla eða gæðaskort hafa fundist við rannsókn stofnunarinnar. Einstaka tilfelli blóðtappa hefðu verið skoðuð og heilt yfir væru ekki meiri líkur á blóðtappa eftir bólusetningu.

Þvert á móti væru vísbendingar um andstæðuna. Að líkur á blóðtappa minnkuðu.

Strauss sagði hins vegar að í einstaka tilfellum hefðu fundist vísbendingar um blóðstorknun sem hefði dregið blóð frá heila viðkomandi. Þó væri útlit fyrir að það tengist undirliggjandi skorti á storknunarefnum í blóði. Þessi tilfelli væru þó einkar sjaldgæf eða um 1 af hverjum tuttugu milljónum.

Á þessari stundu sagði hún að engar vísbendingar væru um að bóluefnið sjálft hefði valdið þessu.


Tengdar fréttir

WHO ráðleggur Evrópuríkjum að nota bóluefni AstraZeneca

Yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) hvatti Evrópuríkja til þess að halda áfram að nota bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni þrátt fyrir nokkrar tilkynningar um blóðtappa. Bóluefnið bjargi mannslífum og ábati af því vegi mun þyngra en áhættan.

ESB íhugar að banna útflutning á bóluefni til Bretlands

Evrópusambandið hótaði því að banna útflutning á bóluefni gegn kórónuveirunni til Bretlands til að tryggja sem flesta skammta fyrir sína eigin þegna. Sambandið er ósátt við hversu fáir skammtar af bóluefni AstraZeneca sem samið var um hafa verið afhentir til þessa.

Land­spítalinn þurfti að farga rúm­lega hundrað skömmtum af bólu­efni

Landspítalinn þurfti að farga rúmlega hundrað skömmtum af bóluefni AstraZeneca við kórónuveirunni, eftir að tekin var ákvörðun um að stöðva tímabundið bólusetningu með bóluefninu í síðustu viku. Búið var að blanda skammtana og bólusetning á starfsmönnum spítalans hafin þann daginn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×