Erlent

Forseti Tansaníu látinn 61 árs að aldri

Eiður Þór Árnason skrifar
John Magufuli var tók við sem forseti Tansaníu árið 2015 og hlaut endurkjör í fyrra.
John Magufuli var tók við sem forseti Tansaníu árið 2015 og hlaut endurkjör í fyrra. Epa/DANIEL IRUNGU

John Magufuli, forseti Tansaníu, lést í gær 61 árs að aldri. Varaforseti landsins greindi frá þessu í sjónvarpsávarpi í dag og sagði Magufuli hafa dáið á spítala í Dar es Salaam, stærstu borg landsins, eftir glímu við bráð hjartavandamál.

Fram að því hafði forsetinn ekki sést opinberlega í yfir tvær vikur og orðrómar farnir að ganga um slæma heilsu hans. Stjórnarandstæðingar fullyrtu í síðustu viku að Magufuli hafi veikst af Covid-19 en það hefur ekki fengist staðfest.

„Það er með djúpri sorg sem ég tilkynni ykkur að við höfum misst okkar hugrakka leiðtoga, forseta lýðveldisins Tansaníu, John Pombe Magufuli,“ sagði varaforsetinn Samia Suluhu Hassan í ávarpi sem sent var út á ríkissjónvarpsstöð landsins.

Hún lýsti um leið yfir tveggja vikna þjóðarsorg og gaf fyrirmæli um að fána landsins yrði flaggað í hálfa stöng.

Vilja ekki kaupa bóluefni

Magufuli var tók við sem forseti árið 2015 og hlaut endurkjör í fyrra eftir umdeildar kosningar þar sem stjórnvöld voru sökuð um kosningasvindl.

Forsetinn gerði lítið úr kórónuveirufaraldrinum með markvissum hætti og talaði fyrir því að bænir og jurtagufumeðferðir yrðu nýttar til að vinna gegn veirunni.

Tansanía hefur ekki birt tölur um fjölda kórónuveirutilfella í landinu frá því í maí á síðasta ári og hafa stjórnvöld ekki viljað kaupa bóluefni.

Kassim Majaliwa, forsætisráðherra landsins, fullyrti í síðustu viku að forsetinn væri vinnandi og við fulla heilsu. Þá sakaði hann „hatursfulla“ brottflutta Tansaníumenn um að dreifa sögusögnum um slæma heilsu Magufuli.

Á mánudag greindi lögregla frá því að fjórir einstaklingar hafi verið handteknir, grunaðir um að hafa dreift ósönnum orðrómum um veikindi forsetans á samfélagsmiðlum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×