Erlent

Vatíkanið bannar blessun samvistar sam­kynja para

Samúel Karl Ólason skrifar
Í skjali sem Vatíkanið birti í dag komi fram að samvist samkynja para séu ekki samkvæmt ætlun guðs.
Í skjali sem Vatíkanið birti í dag komi fram að samvist samkynja para séu ekki samkvæmt ætlun guðs. AP/Gregorio Borgia

Vatíkanið gaf í dag út ákvörðun, sem Frans páfi, samþykkti, um að kaþólskir prestar megi ekki blessa samvist samkynja para. Það sé ekki í samræmi við ætlanir guðs og ekki sé hægt að blessa syndsamlega hegðun.

Samkynhneigðir kaþólikkar höfðu bundið vonir við að Frans myndi bæta viðhorf kaþólsku kirkjunnar til þeirra. Sérstaklega eftir að hann lýsti stuðningi við staðfestingu samvistar samkynja para í viðtali sem tekið var árið 2019 en birt í fyrra.

Þar sagði Frans páfi að samkynhneigt fólk ætti „rétt á því að vera í fjölskyldu“ og að þau væru börn guðs. Kallaði hann eftir því að samkynhneigt fólk hljóti lagalega vernd. Var hann að tala um afstöðu sína og annarra leiðtoga kirkjunnar í Argentínu á árum áður, þegar ráðamenn þar voru að íhuga lögleiðingu hjónabanda samkynja para.

Sjá einnig: Páfinn lýsir yfir stuðningi við staðfesta samvist samkynja para

Þessi nýja ákvörðun Vatíkansins þykir þó til marks um að páfinn sé ekki tilbúinn til að breyta reglum og viðmiðum kirkjunnar með því markmiði að koma til móts við kaþólskt LGBT-fólk.

AP fréttaveitan fjallar um ákvörðunina og segir í skjali sem Vatíkanið birti í dag komi fram að samvist samkynja para sé ekki samkvæmt ætlun guðs, jafnvel þó hún innihaldi jákvæða þætti. Því sé ekki hægt að veita þeim blessun guðs.

Sama stofnun Vatíkansins og gaf út þessa ákvörðun, sagði í sambærilegri ákvörðun árið 2003 að virðing kirkjunnar fyrir samkynhneigðu fólki gæti ekki leitt til samþykktar samkynhneigðar hegðunar og lagalegrar samþykktar hjónabanda samkynja para.

Þannig væri verið að samþykkja „afbrigðilega hegðun“ og setja hjónabönd samkynja para á sama stall og hjónaband manns og konu.

Samkvæmt frétt Washington Post eru prestar og biskupar víða um heim farnir að ræða sín á milli að blessa samvist samkynja para. Mikil umræða um það hefur til að mynda farið fram í Þýskalandi og þar vilji pólitískir leiðtogar að kirkjan aðlagist nútímanum.

Kirkjan segir ákvörðunina ekki ætlað að vera mismunun gegn LGBT-fólki og er kallað eftir því að prestar komi fram við samkynhneigt fólk af virðingu og viðkvæmni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.