Enski boltinn

Man United án fjölda lykil­manna um helgina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir tveir eru meðal þeirra átta leikmanna Man United sem eru á meiðslalistanum.
Þessir tveir eru meðal þeirra átta leikmanna Man United sem eru á meiðslalistanum. Clive Brunskill/Getty Images

Ole Gunnar Solskjær hefur ekki úr mörgum mönnum að velja fyrir leik lærisveina sinna gegn West Ham United á sunnudag. Anthony Martial meiddist í jafnteflinu gegn AC Milan í Evrópudeildinni og fyrir voru fjölmargir lykilmenn frá vegna meiðsla.

Framlína Manchester United er vægast sagt þunnskipuð fyrir leik helgarinnar. Edinson Cavani er ekki leikfær, sömu sögu er að segja af Marcus Rashford og þá meiddist Martial í vikunni og verður ekki með um helgina.

Það er því ljóst að Amad Diallo gæti byrjað sinn fyrsta leik fyrir félagið er Man Utd tekur á móti West Ham á Old Trafford. Amad eins og hann er kallaður kom inn fyrir Martial gegn Milan og skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið.

Eins og staðan er í dag eru hann, Mason Greenwood og Daniel James einu leikfæru leikmenn liðsins í fremstu línu.

Það verður því forvitnilegt að sjá hvað Solskjær gerir en ásamt því að vera án sinna fremstu leikmanna þá er Paul Pogba enn frá vegna meiðsla. David De Gea er svo í sóttkví eftir að hafa farið til Spánar til að vera viðstaddur fæðingu frumburðarins. Solskjær sagði á blaðamannafundi í dag að hann viti ekki hvenær De Gea er laus úr sóttkvíinni. Það er því ljóst að Dean Henderson fær tækifæri í markinu gegn lærisveinum David Moys.

Ásamt öllum þessum þá eru þeir Donny van de Beek, Juan Mata og Phil Jones einnig frá vegna meiðsla. Sá síðastnefndi mun eflaust ekki spila aftur fyrr en á næstu leiktíð.


Tengdar fréttir

Simon Kjær bjarg­vættur AC Milan á Old Traf­ford

Manchester United og AC Milan gerðu 1-1 jafntefli í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld. Varamaðurinn Amad Diallo kom Man Utd yfir en Simon Kjær jafnaði metin í uppbótartíma fyrir gestina frá Mílanó. 

Solskjær sendi De Gea í fæðingarorlof

David de Gea, markvörður Manchester United, er farinn til Spánar en eiginkona hans, poppstjarnan Edurne, á von á þeirra fyrsta barni. Dean Henderson verður því í marki United í næstu leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×