Enski boltinn

Má dæma aftur eftir að hafa ógnað leikmanni Ipswich

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Darren Drysdale reiddist eftir kröfug mótmæli Alans Judge, leikmanns Ipswich Town.
Darren Drysdale reiddist eftir kröfug mótmæli Alans Judge, leikmanns Ipswich Town.

Darren Drysdale má dæma á ný eftir að hafa ógnað leikmanni Ipswich Town í leik gegn Northampton í síðasta mánuði.

Undir lok leiksins lenti Drysdale og Ipswich-manninum Alan Judge saman eftir að sá síðarnefndi mótmælti því að hafa gerst sekur um leikaraskap.

Mótmæli Judges fóru illa í Drysdale sem virtist nudda höfði sínu upp við höfuð Judges og var með ógnandi tilburði sem eru sjaldséðir hjá dómara.

Drysdale fékk svokallað afturvirkt bann fyrir framkomu sína sem gilti frá 19. febrúar til 10. mars. Honum er hins vegar frjálst að dæma á ný frá og með næstu helgi.

Drysdale játaði að hafa brotið reglur enska knattspyrnusambandsins. Auk þess að fá afturvirkt bann fékk hann viðvörun vegna framkomu sinnar.

Hann sagðist aldrei hafa fengið yfir sig viðlíka fúkyrðaflaum á ferlinum og frá Judge sem varð til þess að hann snöggreiddist. Drysdale sagði að Judge hafi sagt að hann væri sköllóttur og svindlari í þokkabót. Judge hafnar því alfarið að hafa notað þessi orð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×