Erlent

Ætla sér að reisa geimstöð á tunglinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Tunglið gæti átt von á gestum frá nokkrum löndum á næstu árum.
Tunglið gæti átt von á gestum frá nokkrum löndum á næstu árum. Vísir/EPA

Rússar og Kínverjar hafa gert samkomulag um að reisa rannsóknarstöð á tunglinu. Stöðina vilja þeir nota bæði til könnunar og nýtingar tunglsins í framtíðinni.

Geimstöðin yrði annað hvort á yfirborði tunglsins, á braut um tunglið eða hvoru tveggja, að því er segir í tilkynningu frá rússnesku geimstofnuninni Roscosmos. Öðrum þjóðum stæði til boða að nýta sér stöðina.

Samkomulagið felur í sér samstarf um undirbúning, hönnun, þróun og rekstur bækistöðvar á tunglinu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Rússar eiga sér langa sögu geimrannsókna. Þeir sendu meðal annars fyrsta gervitunglið á braut um jörðu og fyrsta manninn út í geiminn. Kínverjar hafa gert sig gildandi í geimnum undanfarin ár, nú síðast með tunglfarinu Chang‘e 5 sem sótti berg- og jarðvegssýni á tunglinu og flutti aftur til jarðar í desember.

Bandaríkjamenn hafa einnig lýst því yfir að þeir ætli sér aftur til tunglsins fyrir árið 2024. Stefnan er að senda fólk til tunglsins í fyrsta skipti frá 1972.


Tengdar fréttir

Tunglfarið á leið til jarðar með mánagrjót

Ríkismiðlar Kína segja að geimfarið Chang'e 5 sé nú á leið aftur til jarðarinnar eftir að hafa lent á tunglinu og tekið þaðan sýni. Geimfarið lenti á tunglinu fyrr í vikunni.

Geimfararnir sem stefna á tunglið

Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) opinberaði í gær hóp geimfara sem hafa verið valdir til að taka þátt í Artemis áætluninni. Hún snýr að því að hefja mannaðar geimferðir til tunglsins á nýjan leik og nota það sem stökkpall fyrir geimferðir lengra út í sólkerfið og þá sérstaklega til mars.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×