Chelsea á fleygi­ferð undir stjórn Tuchels

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Chelsea hafa spilað vel undir stjórn Tuchels og fljúga upp töfluna.
Leikmenn Chelsea hafa spilað vel undir stjórn Tuchels og fljúga upp töfluna. Glyn Kirk/Getty

Chelsea vann nokkuð þægilegan 2-0 sigur á Everton á heimavelli í kvöld en Chelsea liðið hefur verið á góðu skriði síðan að Þjóðverjinn Thomas Tuchel tók við liðinu.

Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton og var með fyrirliðabandið er Everton reyndi að sækja enn einn útisigurinn á leiktíðinni.

Chelsea réð ferðinni í kvöld og fyrsta markið kom eftir þrjátíu mínútur. Fyrirgjöf Marcus Alonso rataði á Kai Havertz sem stýrði boltanum í Ben Godfrey, varnarmann Everton, og í netið.

Skömmu síðar varði Jordan Pickford svo frábærlega frá áður nefndum Alonso en Richarlison fékk besta færi Everton í fyrri hálfleiknum er skot hans fór framhjá. 1-0 fyrir heimamenn í hálfleik.

Þeir tvöfölduðu svo forystuna á 65. mínútu. Jordan Pickford gerðist þá brotlegur innan vítateigs er hann tók Kai Havertz niður í teignum. Jorginho fór á punktinn og skoraði.

Chelsea fékk færin til þess að bæta við fleiri mörkum en Pickford varði vel frá bæði Werner og og N'Golo Kante. Lokatölur 2-0.

Chelsea er eftir sigurinn í fjórða sæti deildarinnar með 50 stig en liðið er fjórum stigum frá Man. United sem er í öðru sætinu. Everton er sæti neðar með 46 stig. Everton á þó leik til góða á Chelsea sem og fleiri lið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira