Svissneski þjóðarflokkurinn af hægri væng svissneskra stjórnmála lagði tillöguna fram og sagði henni ætlað að berjast gegn öfgahyggju. Ríkisstjórnin lagðist gegn tillögunni þar sem hún taldi það ekki hlutverk ríkisins að hlutast til um klæðaburð kvenna, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Tillagan var samþykkt með 52,1% atkvæða gegn 48,8%. Miðstjórn múslima, áhrifamestu samtök múslima í Sviss, lýsa niðurstöðunni sem „myrkum degi“ fyrir múslima í landinu.
„Ákvörðun dagsins ýfir upp gömul sár, eykur enn á mismunun gagnvart lögum og sendir skýr skilaboð um útskúfun minnihlutahóps múslima,“ sagði í yfirlýsingu frá samtökunum sem hyggjast skjóta niðurstöðunni til dómstóla.
Um 5% þeirra 8,6 milljóna manna sem búa í Sviss eru múslimar. Flestir þeirra eiga rætur sínar að rekja til Tyrklands, Bosníu og Kósovó. Rannsóknir benda til þess að nánast engar svissneskar konur gangi með búrku. Aðeins um þrjátíu konur gangi með níkab-andlitsslæðu.