Erlent

Slæðubann samþykkt í Sviss

Kjartan Kjartansson skrifar
Þrátt fyrir að ekki hafi verið minnst á íslam með nafni í tillögunnni um bann við slæðum hefur almennt verið rætt um hana sem „búrkubann“ í Sviss. Þetta áróðursspjald í þorpinu Bouchs sýnir búrkuklædda konu með slagorðinu „Stöðvum öfgahyggju“.
Þrátt fyrir að ekki hafi verið minnst á íslam með nafni í tillögunnni um bann við slæðum hefur almennt verið rætt um hana sem „búrkubann“ í Sviss. Þetta áróðursspjald í þorpinu Bouchs sýnir búrkuklædda konu með slagorðinu „Stöðvum öfgahyggju“. AP/Urs Flueeler

Naumur meirihluti Svisslendinga samþykkti bann við andlitsdulum í þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudag. Bannið nær til slæða sem konu af múslimatrúa klæðast, þar á meðal til búrkna og andlitsslæða.

Svissneski þjóðarflokkurinn af hægri væng svissneskra stjórnmála lagði tillöguna fram og sagði henni ætlað að berjast gegn öfgahyggju. Ríkisstjórnin lagðist gegn tillögunni þar sem hún taldi það ekki hlutverk ríkisins að hlutast til um klæðaburð kvenna, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Tillagan var samþykkt með 52,1% atkvæða gegn 48,8%. Miðstjórn múslima, áhrifamestu samtök múslima í Sviss, lýsa niðurstöðunni sem „myrkum degi“ fyrir múslima í landinu.

„Ákvörðun dagsins ýfir upp gömul sár, eykur enn á mismunun gagnvart lögum og sendir skýr skilaboð um útskúfun minnihlutahóps múslima,“ sagði í yfirlýsingu frá samtökunum sem hyggjast skjóta niðurstöðunni til dómstóla.

Um 5% þeirra 8,6 milljóna manna sem búa í Sviss eru múslimar. Flestir þeirra eiga rætur sínar að rekja til Tyrklands, Bosníu og Kósovó. Rannsóknir benda til þess að nánast engar svissneskar konur gangi með búrku. Aðeins um þrjátíu konur gangi með níkab-andlitsslæðu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.