Enski boltinn

Slógu met Shearer og Sutton í sameiningu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane og Son Heung-Min hafa náð frábærlega saman í framlínu Tottenham Hotspur á leiktíðinni.
Harry Kane og Son Heung-Min hafa náð frábærlega saman í framlínu Tottenham Hotspur á leiktíðinni. Getty/Rob Newell

Það hefur verið sögulega góð samvinna í framlínu Spurs liðsins á þessu tímabili.

Framherjaparið Harry Kane og Son Heung-Min hjá Tottenham náðu að slá 25 ára met í 4-1 sigri Tottenham liðsins á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Þegar Son Heung-Min lagði upp fjórða mark Tottenham liðsins fyrir Harry Kane þá höfðu þeir félagar náð að vinna saman að sínu fjórtánda deildarmarki á leiktíðinni.

Með því féll met þeirra Alan Shearer og Chris Sutton sem unnu saman að þrettán mörkum með Blackburn Rovers á 1994-95 tímabilinu.

Son Heung-Min hefur lagt upp tíu mörk fyrir Harry Kane og Kane hefur á móti lagt upp fjögur mörk fyrir Son.

Met Shearer og Sutton var síðast í hættu 2018-19 tímabilið þegar þeir Callum Wilson og Ryan Fraser unnu saman að tólf mörkum með Bournemouth. Metið lifði það af en nú heyrir það sögunni til.

Kane og Son gæti bætt annað met því þá vantar nú tvö mörk til að hafa unnið saman af flestum mörkum í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Það er met er 36 mörk og í eigu þeirra Didier Drogba og Frank Lampard þegar þeir voru saman hjá Chelsea.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.