Erlent

Mannapar í San Diego bólusettir gegn Covid-19

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Alvanalegt er að bólusetja mannapa með bóluefnum sem hafa verið þróuð fyrir hunda og ketti.
Alvanalegt er að bólusetja mannapa með bóluefnum sem hafa verið þróuð fyrir hunda og ketti. San Diego Zoo/Christina Simmons

Níu mannapar í dýragarðinum í San Diego hafa verið bólusettir gegn Covid-19. Um er að ræða fjóra órangúta og fimm simpasa, sem hafa fengið tvo skammta af bóluefni frá Zoetis, fyrirtæki sem framleiðir lyf fyrir dýr.

Um er að ræða tilraunaverkefni en átta górillur í dýragarðinum greindust með Covid-19 í janúar síðastliðnum, fyrstar mannapa í heiminum. Verndunarsinnar hafa áhyggjur af útbreiðslu sjúkdómsins meðal mannapa, ekki síst górilla, sem eru í útrýmingarhættu.

„Þetta er ekki normið,“ sagði Nadine Lamberski, yfirmaður hjá San Diego Zoo Wildlife Alliance, í samtali við National Geographic. „Á öllum mínum ferli hef ég aldrei haft aðgang að tilraunabóluefni svona snemma né hef ég haft jafn yfirþyrmandi löngun til að nota það.“

Meðal skepnanna sem voru bólusettar var Karen, fyrsti órangútinn til að gangast undir opna hjartaskurðaðgerð árið 1994.

Að sögn Lamberski hefur aukaverkana ekki orðið vart hjá öpunum en ónæmi þeirra verður rannsakað á næstunni til að kanna virkni efnisins.

Covid-19 hefur greinst hjá öðrum dýrategundum í dýragörðum, meðal annars ljónum og tígrisdýrum í Bronx-dýragarðinum í New York og ljónum í Barcelona. Þá hefur SARS-CoV-2, veiran sem veldur Covid-19, fundist í hundum, köttum og minkum.

Zoetis hóf þróun bóluefnisins í febrúar á síðasta ári eftir að hundur greindist í Hong Kong. Bóluefnið var úrskurðað öruggt og áhrifaríkt í október síðastliðnum, að minnsta kosti hjá hundum og köttum.

Að sögn Lamberski er alvanalegt að bóluefni sem þróuð eru með hunda og ketti í huga séu gefin mannöpum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×