Enski boltinn

Klopp vill banna sínum leikmönnum að fara í landsleikina í mars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp talar við sína leikmenn í Liverpool en hann vill skiljanlega ekki missa landsliðsmennina í tíu daga sóttkví eftir landsleikjahléið.
Jürgen Klopp talar við sína leikmenn í Liverpool en hann vill skiljanlega ekki missa landsliðsmennina í tíu daga sóttkví eftir landsleikjahléið. AP/Lawrence Griffiths

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur miklar áhyggjur af því að missa leikmenn í langa sóttkví eftir að þeir koma til baka úr landsliðsferðum í lok mánaðarins.

Klopp vill hreinlega banna landsliðsmönnum Liverpool að fara í landsleikina í lok mars. Ástæðan er að samkvæmt sóttvarnarreglum í Bretlandi þá þurfa allir sem koma frá löndum á rauða listanum að fara í tíu daga sóttkví þegar þeir koma til landsins.

Alþjóða knattspyrnusambandið segir að félögin megi banna leikmönnum að fara til móts við landsliðin sín ef þeirra bíður fimm daga eða lengri sóttkví við komuna til baka. Það er líklegt að Liverpool og fleiri lið nýti sér þetta.

„Ég skil vel þörfina hjá landsliðum mismunandi knattspyrnusambanda en nú er tíminn þar sem er ekki hægt að halda öllum ánægðum,“ sagði Jürgen Klopp.

„Félögin borga leikmönnum launin og þeir hljóta því að setja liðin sín í forgang. Það er bara ekki hægt að gera alla ánægða, endurtók Klopp og talaði líka um mögulega óvissu með staðsetningu leikjanna.

„Við erum ekki hundrað prósent viss því þetta et ekki á hreinu. Sum lönd gætu jafnvel breytt um keppnisstað áður en þau spila. Þú þarft alltaf að bíða fram á síðustu stundu því fólk þarf tíma til að taka ákvörðun,“ sagði Klopp.

„Ég held að allir séu sammála um það að við getum ekki leyft þessum leikmönnum að fara og þurfa síðan að dúsa á hóteli í tíu daga þegar þeir koma til baka. Það getur ekki verið lausnin,“ sagði Klopp.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.