Íslenski boltinn

„Þarf að vinna málið betur“

Sindri Sverrisson skrifar
Ásgrímur Helgi Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram.
Ásgrímur Helgi Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram. vísir/sigurjón

„Nú þarf bara að setjast niður, ræða málin og ná samstöðu,“ segir Ásgrímur Helgi Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, eftir ársþing KSÍ um helgina. Þar var tillaga Fram um 14 liða efstu deild karla felld, sem og tillaga stjórnar KSÍ um fjölgun leikja með því að taka upp úrslitakeppni í deildinni.

Hvor tillaga um sig naut reyndar meirihlutafylgis en til að ná fram lagabreytingatillögu þurfti 2/3 hluta atkvæða. Stuðningurinn reyndist ekki nægur, við hvoruga tillöguna.

„Ég held að það þurfi að ná breiðari samstöðu um þá tillögu sem lögð er fyrir. Undirbúningurinn þarf að vera breiðari, það þurfa fleiri að koma að honum og það þarf að vinna málið betur áður en það fer fyrir þing KSÍ næst,“ segir Ásgrímur Helgi í viðtali við Ríkharð Óskar Guðnason í dag. 

Klippa: Sportpakkinn - Ásgrímur hjá Fram eftir ársþing KSÍ

Ásgrímur kveðst áfram tala fyrir fjölgun liða í 14: „Við horfum á það þannig að þetta sé möguleiki fyrir unga og efnilega leikmenn til að komast inn í deildina og verða betri. Þannig aukum við gæði knattspyrnunnar. Með því er meira aðhald fyrir efri hluta deildarinnar.“

Aðspurður hvort að taka ætti ákvörðunarvaldið úr höndum ársþings KSÍ svarar Ásgrímur:

„Á meðan að við erum með samtök efstudeildarliða, í Íslenskum toppfótbolta, þá eigum við að hafa málið þar. Það er það fyrirkomulag sem við höfum komið okkur upp. Ég held að það sé alveg hægt að ná breiðri samstöðu félaganna sem þar eru um niðurstöðu málsins.“


Tengdar fréttir

Engin breyting var versta niðurstaðan

„Það er hagsmunamál fyrir leikmenn að fá fleiri leiki sem skipta máli. Þeir sinna fótboltanum allan ársins hring,“ segir Arnar Sveinn Geirsson, forseti Leikmannasamtaka Íslands, nú þegar ljóst er að ekki verða breytingar á Pepsi Max-deild karla í fótbolta að sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×