Íslenski boltinn

Ótrúleg endurkoma Fjölnis - Valsmenn með fullt hús stiga

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Skoraði og sá rautt.
Skoraði og sá rautt.

Fjórir leikir fóru fram í A-deild Lengjubikarsins í fótbolta hér á landi í dag og var mikið skorað í leikjum dagsins.

Íslandsmeistarar Vals eru áfram með fullt hús stiga eftir öruggan 3-0 sigur á Lengjudeildarliði Víkings frá Ólafsvík. Kaj Leó í Bartalsstovu, Sigurður Egill Lárusson og Patrick Pedersen sáu um markaskorun en sá síðastnefndi fékk að líta rauða spjaldið skömmu fyrir leikslok.

Í Reykjaneshöllinni unnu Keflvíkingar 2-0 sigur á Selfoss en Keflvíkingar verða nýliðar í Pepsi Max deildinni á komandi Íslandsmóti á meðan Selfyssingar verða nýliðar í Lengjudeildinni.

Mesta fjörið var í Reykjavíkurslag Leiknis og Fjölnis þar sem lokatölur urðu 3-4, Fjölni í vil eftir að staðan var 3-1 fyrir Leikni þegar tíu mínútur lifðu leiks.

Þá fékk Daði Bærings að líta rautt spjald auk þess sem dæmd var vítaspyrna á hann. Úr henni skoraði Andri Freyr Jónasson sitt annað mark í leiknum og í kjölfarið nýttu Fjölnismenn liðsmuninn til að gera út um leikinn á lokamínútunum.

Auk Andra voru Guðmundur Karl Guðmundsson og Hilmir Rafn Mikaelsson á skotskónum fyrir Fjölni en Sævar Atli Magnússon (2) og Henrik Berger sáu um markaskorun Breiðhyltinga.

Í kvennaflokki vann Selfoss öruggan 3-1 sigur á KR þar sem þær Katrín Ágústsdóttir (2) og Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir komu Selfossi í 3-0 áður en Rebekka Sverrisdóttir lagaði stöðuna fyrir KR.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.