Erlent

Segir Armi­e Hammer hafa „merkt sig“ og dreift nektar­myndum í ó­leyfi

Sylvía Hall skrifar
Armie Hammer.
Armie Hammer. Getty/Patrick McMullan

Áhrifavaldurinn og háskólaneminn Paige Lorenze segir leikarann Armie Hammer hafa rist upphafsstaf sinn við lífbein hennar og síðar sleikt blóðið í burtu. Lorenze, sem var kærasta Hammer undir lok síðasta árs, hefur áður greint frá því að hann hafi dreift nektarmyndum af henni án hennar leyfis.

Styr hefur staðið um leikarann í ár eftir að skjáskot af skilaboðum frá honum fóru í dreifingu á netinu. Skilaboðin áttu að hafa verið send á konur sem hann var ýmist að hitta eða í samskiptum við, og sagðist hann þar vilja „drekka úr þeim blóðið“ og kvaðst vera mannæta. Þá sagðist hann eiga konurnar.

Í kjölfarið steig kona fram sem átti í ástarsambandi við leikarann á meðan hann var giftur fyrrverandi eiginkonu sinni Elizabeth Chambers. Sagði hún leikarann hafa haldið við margar konur á sama tíma, sagt þeim að hann væri ástfanginn af þeim og beðið þær um að bíða þar til skilnaður hans og Chambers færi í gegn.

Með tímanum hefði hegðun hans orðið ofbeldsfyllri og hann farið að tala um hluti á borð við mannát, blóðdrykkju og fleira í þeim dúr. Hann hafi litið svo á að konurnar væru eign hans.

Hefði átt að vita að henni þætti þetta óþægilegt 

Lorenze, sem er 23 ára gömul, sagði í viðtali við Dr. Oz að Hammer hefði rist upphafsstafinn á líkama hennar á meðan hún var bundin. Hann hafi spurt hana um leyfi, en hófst handa við að rista stafinn áður en hún fékk færi á að svara.

Benti hún á aldursmuninn þeirra á milli, sem er tólf ár, og sagði hann hafa verið í augljósri valdastöðu gagnvart henni. Hún hafi viljað gera honum til geðs á þessum tíma og hann hefði mátt vita að henni þætti þetta óþægilegt.

Lorenze greindi sjálf frá því á Twitter í janúar að Hammer væri að deila nektarmyndum af henni án hennar vitundar. Hún hefði aldrei gefið honum leyfi til, enda vissi hún ekki af myndunum, og frétti af dreifingunni í gegnum þriðja aðila.

„AH að deila myndum af mér sem ég vissi ekki að væru til með fólki á netinu, án míns leyfis eða vitundar. Ógeðslegt, meiðandi og í raun óásættanlegt,“ skrifaði Lorenze.

Þá hefur hún áður sagt leikarann hafa geymt gínur í kjallaranum sínum þar sem hann æfði sig í því að binda hnúta og hann hafi verið með þráhyggju fyrir „kjöti, beinum og æðum“.

Hammer hefur ekki enn tjáð sig um ásakanir Lorenze, en hvað varðar upphaflegu skjáskotin sagðist hann ekki ætla að tjá sig um „fáránlegar fullyrðingar“ og árásir gagnvart persónu sinni. Sagðist hann sjálfur hafa sagt sig frá verkefnum vegna málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×