Erlent

Trump sagður mjög ó­sáttur við frammi­stöðu verj­enda sinna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sætir ákæru fyrir embættisbrot vegna árásarinnar á þinghúsið í byrjun janúar.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sætir ákæru fyrir embættisbrot vegna árásarinnar á þinghúsið í byrjun janúar. Getty/Jabin Botsford

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er sagður hafa verið allt annað en sáttur við frammistöðu verjenda sinna á fyrsta degi réttarhaldanna yfir honum í gær í öldungadeild Bandaríkjaþings.

Verjendurnir eru þeir Bruce L. Castor og David I. Schoen. Castor tók fyrstur til máls og samkvæmt umfjöllun New York Times á Trump að vera brjálaður vegna framsögu hans. Hann hafi verið aðeins sáttari við ræðu Schoen en þó pirraður og almennt ósáttur við lögmennina tvo.

Réttarhöldin hófust á málflutningi Demókrata þar sem meðal annars var sýnt frá árásinni á þinghúsið, ræðu Trumps í aðdraganda árásarinnar og ítrekuðum staðhæfingum hans um að umfangsmikið kosningasvindl hefði kostað hann sigurinn í forsetakosningunum í nóvember.

Á meðal þess sem sagt er hafa farið fyrir brjóstið á Trump er að Castor tók fyrstur til máls en Schoen átti að flytja ræðu sína á undan. Sagði Castor að þeir hefðu ákveðið á síðustu stundu að skipta um röðunina á framsögum þeirra þar sem málflutningur Demókrata hefði verið svo góður.

Það að annar lögmanna hans skyldi lofa ákærendurna á málinu kom Trump á óvart og fór í taugarnar á honum samkvæmt heimildarmönnum New York Times.

Réttarhöldin halda áfram klukkan fimm í dag að íslenskum tíma. Trump er ákærður fyrir að hvetja til uppreisnar og snýr kæran sérstaklega að hlutverki forsetans í því að æsa fólk upp sem á endanum braut sér leið inn í þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar með það að markmiði að stöðva formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna í nóvember.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.