Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, tilkynnti um tilslakanir á aðgerðunum í dag. Í þeim felst meðal annars að strandir verða opnar almenningi að nýju og trúarlegar athafnir verða leyfðar, bæði þó með ákveðnum takmörkunum í gildi. Þá verður banni á sölu áfengis í landinu aflétt, en bannið var afar óvinsælt meðal almennings.
Suður-Afríka er það Afríkuland sem hvað verst hefur komið út úr kórónuveirufaraldrinum, en samkvæmt tölfræði Johns Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum hafa 1,4 milljónir manna greinst með veiruna í landinu og yfir 44 þúsund látið lífið af völdum Covid-19.
Fjölmörg ríki heims hafa takmarkað eða bannað alfarið ferðalög frá Suður-Afríku vegna útbreiðslu skæðs afbrigðis kórónuveirunnar, sem kennt er við landið. Afbrigðið er talið eiga uppruna sinn í landinu og vera meira smitandi. Niðurstöður rannsókna virðast þá benda til þess að afbrigðið þoli bóluefni að einhverju leyti betur en önnur afbrigði.
Suður-Afríka tók í dag á móti sínum fyrstu skömmtum bóluefnis við kórónuveirunni. Um er að ræða eina milljón skammta bóluefnisins frá sænsk-breska fyrirtækinu AstraZeneca. Stjórnvöld í landinu segjast hafa tryggt sér 50 milljónir skammta af bóluefni og vilja bólusetja minnst 40 milljónir manna fyrir lok þessa árs.