Erlent

Bólu­efni AstraZene­ca komið með markaðs­leyfi í Evrópu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
AstraZeneca-bóluefnið geymist betur en bóluefni Pfizer.
AstraZeneca-bóluefnið geymist betur en bóluefni Pfizer. Getty/Konstantinos Zilos

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti nú síðdegis skilyrt markaðsleyfi fyrir bóluefni lyfjafyrirtækisins AstraZeneca gegn Covid-19 í Evrópu. Dreifing á bóluefninu í álfuni mun því geta hafist von bráðar.

„Ég býst við því að fyrirtækið dreifi þeim 400 milljón skömmtum sem samið var um. Við munum gera allt sem við getum til að tryggja bóluefni fyrir alla Evrópubúa, nágranna okkar og samstarfsaðila um heim allan,“ skrifar Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á Twitter í dag.

Lyfjastofnun Evrópu gaf bóluefninu grænt ljós á fundi sínum í dag. Verður það þar með þriðja efnið gegn Covid-19 sem hlýtur markaðsleyfi í Evrópu og bætist í hóp bóluefna Pfizer og Moderna. Efni AstraZeneca er ætlað einstaklingum 18 ára og eldri.

Ísland fær um 230 þúsund skammta af bóluefni AstraZeneca sem duga fyrir um 115 þúsund einstaklinga. Von er á 13.800 skömmtum af bóluefninu hingað til lands í febrúar.

Lyfjastofnun Íslands mun von bráðar gefa út íslenskt markaðsleyfi, nú þegar markaðsleyfi er samþykkt í Evrópu. Fram kemur á vef Lyfjastofnunar að unnið verði að útgáfu leyfisins eins fljótt og auðið er.


Tengdar fréttir

Bólu­efni AstraZene­ca gæti fengið markaðs­leyfi í Evrópu í dag

Bóluefni bresk-sænska lyfjafyrirtækisins AstraZeneca gegn Covid-19 gæti fengið skilyrt markaðsleyfi í Evrópu í dag. Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) mun funda um bóluefnið í dag og ætti niðurstaða varðandi leyfið að liggja fyrir eftir þann fund.

Rannsókn hafin á framleiðsluvanda að beiðni ESB

Belgískir eftirlitsaðilar hafa, að beiðni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hrundið af stað rannsókn á framleiðsluvanda verksmiðju sem framleiðir bóluefni AstraZeneca í Belgíu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×