Enski boltinn

Robertson reyndi að öskra Greenwood úr jafnvægi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tilraun Andys Robertson til að taka Mason Greenwood á taugum heppnaðist ekki.
Tilraun Andys Robertson til að taka Mason Greenwood á taugum heppnaðist ekki.

Andy Robertson greip til nokkuð óhefðbundis bragðs til að koma í veg fyrir að Mason Greenwood skoraði í leik Manchester United og Liverpool í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í gær. United vann leikinn, 3-2.

Liverpool komst yfir á 18. mínútu með marki Mohameds Salah. Sex mínútum síðar slapp Greenwood í gegnum vörn Englandsmeistaranna eftir sendingu frá Marcus Rashford.

Robertson var á hælunum á Greenwood og reyndi í örvæntingu sinni að öskra á hann til að koma honum úr jafnvægi. Það hafði ekki tilætluð áhrif því Greenwood skoraði og jafnaði í 1-1.

Uppátæki Robertsons sást í endursýningu og vakti mikla athygli netverja.

Greenwood lét sér ekki nægja að skora jöfnunarmark United heldur lagði hann einnig upp annað mark liðsins fyrir Rashford.

Bruno Fernandes skoraði svo sigurmark Rauðu djöflanna með skoti beint úr aukaspyrnu tólf mínútum fyrir leikslok.

Liverpool hefur gengið illa það sem af er ári en eini sigur liðsins eftir að árið 2021 gekk í garð var gegn mjög ungu liði Aston Villa í 3. umferð bikarkeppninnar. Næsti leikur Liverpool er gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á fimmtudaginn.


Tengdar fréttir

Bruno Fernandes skaut Man United á­fram | Sjáðu mörkin

Manchester United vann 3-2 sigur á erkifjendum sínum í Liverpool er liðin mættust á Old Trafford í 4. umferð FA-bikarsins í dag. Varamaðurinn Bruno Fernandes reyndist hetja heimamanna í mögnuðum fótboltaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×