Erlent

Biden verður @POTUS 20. janúar en verður að safna fylgjendum upp á nýtt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Joe Biden verður ekki skotaskuld úr því að safna fylgjendum en það er alls óvíst að hann fái hörðustu stuðningsmenn Trump til að verða vinir @POTUS á ný.
Joe Biden verður ekki skotaskuld úr því að safna fylgjendum en það er alls óvíst að hann fái hörðustu stuðningsmenn Trump til að verða vinir @POTUS á ný. Alex Wong/Getty

Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur fengið úthlutað nýjum Twitter-aðgang. Hann mun hins vegar þurfa að byrja upp á nýtt að safna fylgjendum, ólíkt því sem gerðist þegar Obama lét af embætti og Donald Trump tók við.

Hinn 20. janúar næstkomandi, þegar Biden sver embættiseiðinn, mun aðgangurinn @PresElectBiden breytast í @POTUS. Þegar Trump fékk aðganginn 2016 fékk hann 13 milljón fylgjendur Obama með en nú liggur fyrir að Biden mun ekki erfa fylgjendur Trump.

Samráðsmenn Biden fengu fréttirnar fyrir um mánuði síðan og eru heldur óhressir með ákvörðunina. Hún ekki verið útskýrð af hálfu stjórnenda Twitter.

Í bloggfærslu um ráðstafanir vegna valdaskiptana kom einfaldlega fram að „stofnanaaðgangar“ myndu ekki halda núverandi fylgjendum. Samkvæmt BBC hyggst Twitter ekki útskýra þetta frekar og þar við situr.

Hins vegar munu þeir sem áður fylgdu @POTUS og @VP fá tilkynningu og boð um að fylgja aðgöngunum á ný þegar nýr forseti og varaforseti taka við.

@POTUS44 og 45

Barack Obama var fyrsti bandaríski forsetinn sem var með formlegan Twitter-aðgang en @POTUS varð til árið 2015. Öll tíst forsetans voru varðveitt á öðrum aðgangi, @POTUS44, þar sem þau eru enn sjáanleg í dag.

Tíst Trump verða geymd á sama máta, undir @POTUS45, en Twitter hefur ekki gefið upp hvort sama gildir um þau tíst sem birtust undir @realDonaldTrump. 

Þess ber að geta að Hvíta húsið gaf það þó út árið 2017 að öll tíst frá @realDonaldTrump væru „opinberar yfirlýsingar“ forsetans.

Hvað sem Twitter ákveður, verða tístin áfram aðgengileg sagnfræðingum og öðrum áhugasömum til framtíðar, þar sem bandaríska þjóðskjalasafnið hyggst geyma allar samfélagsmiðlafærslur Trump.


Tengdar fréttir

Loka fyrir aðgang Trump að Facebook og Instagram

Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti muni ekki geta notað reikninga sína á Facebook og Instagram í óákveðinn tíma. Í það minnsta þangað til Joe Biden hefur tekið við sem forseti Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í yfirlýsingu Zuckerberg á Facebook.

YouTube lokar tímabundið á Donald Trump

Myndbandssíðan YouTube, sem er í eigu tæknirisans Google, hefur ákveðið að loka tímabundið á það að Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, geti hlaðið upp efni á síðuna. Trump getur þannig hvorki hlaðið upp myndböndum né verið í beinu streymi á YouTube.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.