Erlent

YouTube lokar tímabundið á Donald Trump

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, getur nú ekki nýtt sér Youtube, Facebook eða Twitter til að ná til stuðningsmanna sinna.
Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, getur nú ekki nýtt sér Youtube, Facebook eða Twitter til að ná til stuðningsmanna sinna. AP/Jacquelyn Martin

Myndbandssíðan YouTube, sem er í eigu tæknirisans Google, hefur ákveðið að loka tímabundið á það að Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, geti hlaðið upp efni á síðuna. Trump getur þannig hvorki hlaðið upp myndböndum né verið í beinu streymi á YouTube.

Í tilkynningu frá YouTube segir að ákvörðunin sé tekin eftir að efni sem áður hafði verið hlaðið upp á notendasíðu forsetans braut gegn notendaskilmálum. Samkvæmt YouTube laut brotið að því að hvatt hafði verið til ofbeldis í efninu sem hlaðið hafði verið upp.

Bannið gildir til að byrja með í sjö daga. Það gæti þó verið framlengt og þá hefur efni verið fjarlægt af síðu forsetans. Auk þess hefur verið lokað fyrir athugasemdir undir myndbönum á síðunni.

Áður hafa samfélagsmiðlarnir Facebook og Twitter lokað fyrir aðganga Trumps. Það var gert í kjölfar óeirðanna við bandaríska þinghúsið í síðustu viku þar sem að minnsta kosti fimm manns létust, þar á meðal einn lögreglumaður.

Var reikningum forsetans lokað vegna hættu á frekari hvatningu til ofbeldis. Var til að mynda haft eftir forsvarsmönnum Twitter í tilkynningu að ekki mætti nýta miðilinn til að hvetja til ódæðisverka eða ofbeldis. Slíkt færi gegn stefnu miðilsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×