Sænska þingið samþykkti í dag sérstök neyðarlög – svokölluð heimsfaraldurslög – sem veitir ríkisstjórn og opinberum stofnunum auknar heimildir til að takmarka ýmsa starfsemi í samfélaginu til að hefta megi útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi.
Takmarkaðar lagaheimildir hafa að miklu leyti staðið sænskum stjórnvöldum fyrir þrifum í baráttunni, en með samþykkt neyðarlaganna er vonast til að hægt verði að færa aukinn kraft í hana.
Með neyðarlögunum getur ríkisstjórnin nú tekið ákvarðanir um frekari samkomubann og takmörkun opnunartíma til dæmis leikhúsa, kvikmyndahúsa, líkamsræktarstöðva, sundlauga, tjaldsvæða, dýragarða, listasafna og í ýmslum samkomustöðum.
Sömuleiðis ná lögin til starfsemi verslana og verslunarmiðstöðva, innanlandsflugs og almenningssamgangna.
Neyðarlögin taka gildi á sunnudaginn og fram til síðasta dags septembermánaðar á þessu ári.
Alls hafa nú rúmlega níu þúsund manns látist af völdum Covid-19 í Svíþjóð og eru skráð tilfelli sjúkdómsins nú rúmlega 482 þúsund.
Dan Eliasson, yfirmaður Almannavarnastofnunar Svíþjóðar, hefur óskað eftir því að láta af störfum. Eliasson hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ferð sem hann fór í um jólin til Las Palmas.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.