Erlent

Fannst nakinn á flótta við fljót krökkt af krókódílum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maður sagðist hafa verið villtur í fjóra daga en yfirvöld telja hann hafa verið á flótta undan réttvísinni.
Maður sagðist hafa verið villtur í fjóra daga en yfirvöld telja hann hafa verið á flótta undan réttvísinni. Skjáskot

Ástralskur maður, Luke Voskresensky, sem talinn er hafa verið á flótta undan réttvísinni fannst fyrir tilviljun fyrr í vikunni þar sem hann sat nakinn á fenjavið við fljót nærri Darwin í Ástralíu.

Fljótið var krökkt af krókódílum og voru það tveir veiðimenn sem fundu Voskresensky þegar hann hrópaði á hjálp.

Voskresensky sætir ákæru fyrir vopnað rán. Honum hafði verið sleppt gegn tryggingu en þurfti að ganga um með ökklaband.

Talið er að hann hafi losað sig við bandið í liðinni viku og reynt að flýja en ekki komist lengra en að fyrrnefndu fljóti. Hann sætir nú annarri ákæru fyrir flóttatilraunina og fyrir líkamsárás.

Fjallað er um málið á vef Guardian. Þar er rætt við þá Cam Faust og Kev Joiner sem voru að leggja krabbagildrur í fljótið á sunnudaginn þegar þeir heyrðu einhvern kalla á hjálp.

Þeir fundu Voskresensky þar sem hann sat uppi í tré við fljótið kviknakinn. Hann sagði veiðimönnunum að hann hefði verið villtur í fjóra daga, hann hefði borðað snigla til að halda sér á lífið og notað fötin sín á leiðinni í allskonar hluti.

„Okkur fannst þetta einhvern veginn ekki ganga upp,“ segir Faust um útskýringar Voskresesky á nekt hans.

„Hann hafði búið sér til hreiður uppi í trénu, hann var bara um meter fyrir ofan fljótið sem var fullt af krókódílum svo það var vel gert hjá honum að lifa af.“

Joiner segir að þeir félagarnir hafi hikað áður en þeir tóku Voskresensky í bátinn sinn.

„En svo sáum við í hversu slæmu ásigkomulagi hann var, allur skorinn, uppþornaður og frekar veikburða… þá töldum við betra að taka hann um borð. Við héldum að hann hefði kannski djammað aðeins of mikið á gamlárskvöld, villst af leið og gert eitthvað af sér þarna í skóginum,“ segir Joiner.

Faust lánaði Voskresensky nærbuxurnar sínar og gaf honum bjór þegar hann kom um borð í bátinn. Sjúkrabíll beið svo í Darwin þegar þeir komu í land þar sem flutti Voskresensky á spítala. Þar fékk hann aðhlynningu og var svo settur undir eftirlit lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×