Erlent

Landlægt útgöngubann kemur til greina í Englandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Heilbrigðiskerfi Englands er undir miklum þrýstingi vegna mikillar fjölgunar smitaðra.
Heilbrigðiskerfi Englands er undir miklum þrýstingi vegna mikillar fjölgunar smitaðra. EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA

Enn þarf að herða sóttvarnaraðgerðir í Englandi til að hægja á og stöðva dreifingu nýs afbrigðis nýju kórónuveirunnar þar í landi. Þetta sagði Matt Hancock, heilbrigðisráðherra landsins, í morgun en í gær voru tilkynnt tæplega 55 þúsund ný tilfelli og hafa rúmlega 75 þúsund manns dáið vegna faraldursins.

Ráðherrann segir að meðal annars komi til greina að setja landslægt útgöngubann aftur á. Útgöngubann er þegar í gildi í stórum hlutum Englands.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær að líklega yrðu svæðisbundnar reglur hertar. Mögulega yrði skólum lokað.

Vísindamaður sem hefur ráðlagt yfirvöldum í Englandi vegna faraldursins sagði fyrir áramót að nauðsynlegt væri að herða sóttvarnir til muna. Það væri eina leiðin til að koma í veg fyrir „hamfarir“.

Sjá einnig: Væntir hörmunga í Englandi verði aðgerðir ekki hertar

Í viðtali við Sky News sagði Hancock í morgun að á svæðum þar sem búið væri að setja þriðja stigs sóttvarnareglur væru smituðum enn að fjölga hratt. Þar yrðu viðbúnaðarstigið möguleg hækkað í fjórða, og efsta, stig.

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands.EPA/NEIL HALL

Fjórða stigs aðgerðir fela í sér lokun fyrirtækja og það að fólk haldi sig heima eins og mögulegt sé, svo eitthvað sé nefnt. Lesa má meira um það og stigakerfið í heild á vef yfirvalda Bretlands.

Þegar Hancock var spurður hvort fjórða stigs aðgerðir bæru árangur gegn nýja afbrigðinu, sem dreifist auðveldar, sagði hann það fara eftir því hve vel fólk færi eftir reglunum. Mikilvægt væri að allir gerðu sitt til að sporna gegn dreifingu veirunnar.

Stórir hlutar Englands eru þegar undir fjórða stigs viðbúnaðaráætlun og sóttvarnareglum.

Bretar ætla einnig að setja aukinn kraft í bólusetningar í landinu. Í morgun hófust bólusetningar með bóluefni Oxford-AstraZeneca. Bretland er fyrsta landið sem hefur bólusetningar með efninu sem hefur enn ekki fengið markaðsleyfi annarsstaðar.


Tengdar fréttir

Einn greinst með breska afbrigðið innanlands

Alls hafa sautján einstaklingar greinst með hið svokallaða breska afbrigði kórónuveirunnar hér á landi. Þá hefur einn greinst innanlands með afbrigðið en sú manneskja var nátengd annarri sem hafði greinst á landamærunum.

Bretar hefja bólu­setningar með bólu­efni AstraZene­ca

Bólusetningar með bóluefni Oxford-AstraZeneca hefjast í dag og ætla Bretar að setja aukinn kraft í bólusetningar þar í landi til að reyna að stemma stigu við hraðri útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi.

Baráttunni „engan veginn lokið“ í Bretlandi

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur biðlað til landsmanna að halda sig heima um áramótin og sýna þolinmæði. Baráttunni væri „engan veginn lokið“ þar sem veiran væri í mikilli útbreiðslu, þá sérstaklega vegna nýja afbrigðisins sem hefur hingað til verið kennt við Bretland.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.