Erlent

Væntir hörmunga í Englandi verði aðgerðir ekki hertar

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjórða stigs aðgerðir fela í sér lokun fyrirtækja og það að fólk haldi sig heima eins og mögulegt sé, svo eitthvað sé nefnt.
Fjórða stigs aðgerðir fela í sér lokun fyrirtækja og það að fólk haldi sig heima eins og mögulegt sé, svo eitthvað sé nefnt. EPA/Andy Rain

Vísindamaður sem hefur ráðlagt yfirvöldum í Englandi vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar segir nauðsynlegt að herða sóttvarnir til muna svo koma megi í „hamfarir“ á nýju ári. Smituðum fari hratt fjölgandi í landinu og sporna verði gegn því.

Þetta sagði Andrew Hayward í viðtali í útvarpi BBC í dag. Hann sagði nýtt afbrigði kórónuveirunnar sem hefur verið í dreifingu í Englandi gera núverandi sóttvarnaaðgerðir úreltar. Til þess að stöðva útbreiðsluna þurfi fjórða flokks aðgerðir, sem eru nú í gildi í austurhluta Englands, eða jafnvel harðari aðgerðir en það.

Fjórða stigs aðgerðir fela í sér lokun fyrirtækja og það að fólk haldi sig heima eins og mögulegt sé, svo eitthvað sé nefnt. Lesa má meira um það og stigakerfið í heild á vef yfirvalda Bretlands.

Matt Hancock, heilbrigðismálaráðherra, mun tilkynna mögulegar breytingar á sóttvörnum og samkomubanni í Englandi á morgun. Hann sagði í tísti í dag að heilbrigðiskerfi Englands væri undir gífurlegum þrýstingi vegna faraldursins og að það ástand þurfi að bæta þar til fleiri hafi verið bólusettir.

Í gær greindust yfir fjörutíu þúsund með Covid-19 og er það í fyrsta sinn sem það gerist frá upphafi faraldursins. Þá eru rúmlega tuttugu þúsund manns á sjúkrahúsi með Covid-19 og hafa þeir sömuleiðis aldrei verið fleiri.

Sjá einnig: Í fyrsta sinn frá upp­hafi greindust yfir 40 þúsund á einum degi

Neil Ferguson, annar faraldursfræðingur, sagði einnig við BBC í dag að nýja afbrigði veirunnar geri smitvarnir töluvert erfiðari. Það gerði mun erfiðara að viðhalda sóttvörnum og í senn reyna að viðhalda eins eðlilegu líferni borgara og hægt væri.

Bráðabirgðaniðurstöður rannsókna sýna ekki fram á að nýja afbrigðið valdi alvarlegri veikindum eða fleiri dauðsföllum. Það dreifist þó meira á milli manna.


Tengdar fréttir

„Þið eruð ekki ein“

Elísabet Englandsdrottning nýtti tækifærið í jólaávarpi sínu í gær til að fullvissa þau sem hafa átt erfitt, fjarri vinum sínum og fjölskyldu á þessu ári, um að þau séu ekki ein. Hún sagði að það sem marga langi í um jólin sé „einfalt faðmlag eða þétt handtak,“ en að „jafnvel dimmustu um nætur fylgi von með nýjum degi.“

Slaka á sóttvörnum yfir blájólin með „jólakúlum“

Yfirvöld í Bretlandi hafa tilkynnt að slakað verður á samkomutakmörkunum og sóttvarnarráðstöfunum yfir blájólin þar í landi. Ferðatakmörkunum verður aflétt og meðlimir allt að þriggja heimila mega koma saman.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×