Enski boltinn

Rifjaði upp þegar Rod­gers vildi skipta honum til Ful­ham í stað Clint Demps­ey

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ensku meistararnir hafa gert tvö jafntefli í röð; gegn WBA og Newcastle. Þeir mæta Southampton á mánudagskvöldið.
Ensku meistararnir hafa gert tvö jafntefli í röð; gegn WBA og Newcastle. Þeir mæta Southampton á mánudagskvöldið. John Powell/Liverpool FC

Jordan Henderson, fyrirliði ensku meistaranna í Liverpool, var í löngu viðtali við Guardian um helgina þar sem hann rifjaði meðal annars upp er Brendan Rodgers, þáverandi stjóri Liverpool, vildi skipta honum til Fulham árið 2012.

Rodgers hafði ekki mikinn áhuga á að nota Henderson og hann hafði áhuga á því að fá Clint Dempsey til liðsins frá Fulham. Henderson sjálfur hafði þó ekki mikinn áhuga á skiptunum.

„Þetta var erfitt augnablik sem ég man vel eftir. Við vorum að undirbúa okkur fyrir leik gegn Hearts á Anfield. Við hittumst á hótelinu eins og vanalega og svo var bankað á dyrnar hjá mér. Þetta var stjórinn sem vildi tala við mig,“ sagði Henderson.

„Til þess að vera sanngjarn við Brendan Rodgers þá var þetta bara spjall. Þetta var möguleiki sem ég vildi ekki og mér fannst ég enn hafa ótrúlega mikið að gefa hjá Liverpool. En ég var á slæmum stað á þessum tímapunkti.“

„Þetta gerði mig sterkari og ef þetta augnablik hefði ekki komið upp, þá veit maður aldrei hvað hefði svo gerst. Svo ég kann að meta þetta augnablik því maður neyðist til þess að lenda í áföllum og mótvindi áður en maður reisir sig upp. Maður verður enn ákveðnari í því að sýna fólki að þeim urðu á mistök.“

„Ég neyddist til þess að sýna stjóranum að ég myndi komast í liðið hans, fyrr eða síðar. Ég myndi gera allt til þess að vera áfram hjá félaginu, komast í liðið og sýna þeim að þeim varð á. Það gerði ég að endingu,“ sagði Henderson.

Hann hefur síðan þá náð 382 leikjum fyrir ensku meistarana samkvæmt vefsíðunni Transfermarkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×