Erlent

Handtekinn grunaður um að spilla bóluefni viljandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Geyma þarf bóluefni Moderna við um 20 gráðu frost.
Geyma þarf bóluefni Moderna við um 20 gráðu frost. Charlie Riedel/AP

Lyfjafræðingur í Wisconsin í Bandaríkjunum hefur verið handtekinn fyrir að eyðileggja hundruð skammta af bóluefni Moderna við Covid-19, með því að geyma þá við stofuhita í tvær nætur.

Lögreglan í Grafton, skammt frá borginni Wisconsin, segir að lyfjafræðingurinn hafi verið handtekinn vegna gruns um gáleysislega hegðun sem setti fólk í hættu, að eiga við lyfseðilsskylt lyf og eignaspjöll. Lyfjafræðingnum hefur verið sagt upp störfum og er í haldi lögreglunnar en nafn hans hefur ekki verið gefið út þar sem hann hefur ekki verið ákærður, samkvæmt AP.

Lögregla hefur þá ekki komist að raun um það hvað bjó að baki verknaðinum, en telur að lyfjafræðingurinn hafi viljandi spillt bóluefninu til þess að fólk sem yrði bólusett með því teldi sig ranglega var varið gegn Covid-19.

Samkvæmt fréttum vestanhafs fjarlægði lyfjafræðingurinn 570 skammta af bóluefninu úr kæliskáp á sjúkrahúsinu í Grafton aðfaranótt jóladags. Hann hafi síðan skilað þeim aftur í kælingu, en tekið þáu aftur út sólarhring síðar og þá ekki skilað þeim. Upp komst um verknaðinn daginn eftir þegar lyfjatæknir tók eftir því að bóluefnið lá á glámbekk.

Sjálfur hefur lyfjafræðingurinn sagt að hann hafi aðeins ætlað að færa bóluefnið til þess að komast að öðrum munum sem voru í kælingu. Hann hafi síðan gleymt að skila bóluefninu aftur á sinn stað.

Bóluefni Moderna er hægt að nota í allt að 12 tíma eftir að það hefur verið tekið úr frosti, en það þarf að geymast við 20 gráðu frost. Talið er að andvirði bóluefnisins sem fór til spillis sé allt að 11.000 dollarar eða um 1,4 milljónir króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×