Erlent

Kjósa í þriðja sinn á einu ári

Samúel Karl Ólason skrifar
Avigdor Liberman verður mögulega aftur í kjörstöðu til að mynda ríkisstjórn.
Avigdor Liberman verður mögulega aftur í kjörstöðu til að mynda ríkisstjórn. AP/Tsafrir Abayov

Kjósendur í Ísrael ganga í dag að kjörborðunum í þriðja sinn á einu ári. Síðustu tvær kosningar landsins hafa ekki skilað afgerandi meirihluta og ekki hefur tekist að mynda ríkisstjórn. Benjamin Netanyahu hefur því starfað áfram sem forsætisráðherra, þrátt fyrir að hafa verið ákærður fyrir spillingu og að réttarhöldin gegn honum hefjist eftir tvær vikur.

Miðað við kannanir er enn og aftur útlit fyrir að pattstaðan muni halda áfram, samkvæmt AP fréttaveitunni. Netanyahu hefur nú setið lengur í embætti en nokkur annar forsætisráðherra Ísrael.

Benny Gantz, leiðtogi Bláa og hvíta bandalagsins, vonast til þess að geta velt Neytanyahu úr sessi. Eins og áður gefa kannanir þó í skyn að Avigdor Liberman, leiðtogi Yisrael Beiteinu, muni verða í kjörstöðu eftir kosningarnar og að hann muni mögulega geta myndað ríkisstjórn með annarri hvorri fylkingu Ísrael.

Lieberman var varnarmálaráðherra í fyrri stjórn en lenti upp á kant við Netanyahu því honum þótti hann gefa flokkum heittrúaðra gyðinga innan ríkisstjórnarinnar of mikil völd á kostnað þjóðernishyggjuflokka.

Heilt yfir bjóða 23 flokkar fram í kosningunum en samkvæmt Times of Israel þykir ólíklegt að fleiri en átta flokkar nái yfir þau 3,25 prósent sem til þarf til að fá mann inn á þing. Búist er við lágri kjörsókn í dag, þar sem kjósendur eru þreyttir á ástandinu.

Leiðtogar flokkanna munu verja deginum í að hvetja kjósendur til að takka þátt í kosningunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×